Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37071
Popúlismi er hugtak sem hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu síðastliðinna ára en er þó ekki nýtt af nálinni. Hugtakið lýsir stjórnmálastefnu sem höfðar sérstaklega og á skipulagðan hátt til almennings, oftast í andstöðu við einhverja tiltekna elítu (oft mennta- eða fjölmiðlaelítuna) eða stjórnvöld. Öfga hægri stefna skiptist niður í nokkur afbrigði en ein tegund slíkrar stefnu sem finnst yst á hægri væng stjórnmálanna nefnist þjóðernispopúlismi. Sú tegund popúlisma hefur verið á hraðri uppleið innan Evrópu á nýrri öld. Til eru kenningar innan fræðanna sem reyna að fá úr því skorið hver ástæða velgengninnar er. Fjallað er um þrjár slíkar kenningar en tvær þeirra snúa að eftirspurnarhlið (e. demand-side). Sú fyrri snýst um áhrif menningarbreytinga og aukins flæðis flóttafólks til áfunnar en síðari snýr að áhrifum efnahagslegs óöryggis. Þriðja og síðasta kenningin snýr að framboðshliðinni (e. supply-side) en hún skoðar hvort kosningakerfi ríkis geti skipt máli ef litið er til uppgangs þjóðernispopúlískra stjórnmálaflokka. Til að skilja betur þær kenningar sem fjallað er um og hvernig þær endurspeglast í veruleikanum er nauðsynlegt að skoða dæmi um þjóðernispopúlíska stjórnmálaflokka sem hafa verið áberandi innan Evrópu. Þeir flokkar sem teknir verða fyrir eru UK Independence Party í Bretlandi, Svíþjóðardemókratar í Svíþjóð og Fidesz í Ungverjalandi. Flokkarnir eru skoðaðir með tilliti til uppruna og þróunar, stefnumála og þess jarðvegs sem til staðar er í hverju tilviki fyrir sig. Ef bæði framboðs- og eftirspurnarkenningar eru skoðaðar geta þær að mörgu leyti skýrt uppgang þjóðernsipopúlískra stjórnmálaflokka innan Evrópu á síðustu áratugum. Niðurstöður leiddu auk þess í ljós að kenningarnar útskýra hvert tilvik fyrir sig að mis miklu leyti en þá geta aðrir þættir einnig skýrt uppganginn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Uppgangur þjóðernispopúlisma í Evrópu - Svíþjóð, Bretland og Ungverjaland í spegli kenninga.pdf | 589,89 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman Yfirlýsing .pdf | 330,53 kB | Lokaður | Yfirlýsing |