Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3708
Reglan um bein réttaráhrif (e. direct effect) er ein af grundvallarreglum Evrópubandalagsins og fjallar í stuttu máli um að regla sé þeim eiginleikum gædd að einstaklingar eða lögpersónur geti byggt á henni fyrir dómstólum aðildarríkja, burt séð frá því hvort hún sé hluti landsréttar. Reglan er hvergi orðuð í Rómarsáttmálanum (e. The Treaty Establishing the European Community) en er viðurkennd í framkvæmd enda nátengd reglunni um bein lagaáhrif (e. direct applicability). Þetta er í samræmi við hið sérstaka eðli sem Evrópudómstóllinn komst að niðurstöðu um að Evrópubandalagið og Rómarsáttmálin fælu í sér. Enn fremur sagði dómstóllinn að aðildarríkin hafi takmarkað fullveldi sitt í þágu bandalags sem feli í sér nýja réttarskipun að þjóðarétti.
Frá upphafi Evrópubandalagsins hefur Evrópudómstóllinn haft mikil áhrif á túlkun og framkvæmd Rómarsáttmálans og annarra gerða bandalagsréttar. Það stefnumarkandi hlutverk sem dómstólnum var fengið átti ekki síst þátt í að móta regluna um bein réttaráhrif tilskipana. Reglu þessari veitti dómstóllinn þrjár meginstoðir sem eru viðfangsefni rigerðarinnar.
Fyrst verður fjallað almennt um bein réttaráhrif og stoðir reglunnar um bein réttaráhrif ákvæða Rómarsáttmálans. Því næst verður vikið að stoðum reglunnar um bein réttaráhrif tilskipana þar sem fjallað verður um hverja stoð fyrir sig og í kjölfarið stuttlega um skilyrði beinna réttaráhrifa tilskipana. Þá verður fjallað um réttarheimildalegt gildi stoðanna og þær vangaveltur sem þeim tengjast. Að lokum verður litið yfir farinn veg og einnig reynt að sjá hvaða framtíðaráhrif mótun Evrópudómstólsins á reglunni hefur haft.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Jon_Gunnar_Asbjornsson_fixed.pdf | 384,45 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |