Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37090
Meðalhófsreglan gildir að íslenskum rétti sem óskráð meginregla, en einnig er hún lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðalhófsreglan felur í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs við meðferð valds síns. Meðalhófsreglan hvílir á meginreglu sem hefur mun víðtækara gildissvið en meðalhófsregla stjórnsýslulaga og gildir þannig einnig um rannsóknir og ákvarðanir skattyfirvalda. Stjórnvaldi ber, samkvæmt meðalhófsreglunni að fara ákveðinn meðalveg á milli tveggja andstæðra sjónarmiða, þá verður annars vegar að líta til þess markmiðs sem að er stefnt en hins vegar að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir og valdbeiting stjórnvaldsins beinist að.
Í tekjuskattslögum nr. 90/2003 er skattyfirvöldum víðast hvar fengnar víðtækar heimildir og er meðal annars gert grein fyrir þeim víðtæku heimildum, sem geta leitt til þess að brotið er á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, bæði hjá ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Þegar rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiðir í ljós grun um meiriháttar skattalagabrot er málinu vísað til héraðssaksóknara. Leitast er við að leiða fram hvernig framkvæmd þessara mála er háttað, hvernig samstarf embættanna skarast og hvort um réttláta og ásættanlega málsmeðferð og málsmeðferðarhraða er að ræða með tilliti til meðalhófsreglunnar.
Að lokum eru nýlegir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslenska ríkinu teknir til skoðunar, er varða réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MRG_Lokaskjal.pdf | 814.65 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |