Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37097
Inngangur: Sýklalyfjaónæmi meðal baktería er mikil ógn við heilsu manna og dýra og hefur farið stigvaxandi frá því að sýklalyf voru uppgötvuð á fyrri hluta 20. aldar. Aukin notkun sýklalyfja helst í
hendur við vaxandi ónæmi gegn þeim. Um leið dvínar árangur sýklalyfjameðferðar sem eykur sjúkdómsbyrði og dánartíðni tengda smitsjúkdómum. Bakteríur í ættbálknum Enterobacterales eru
meðal algengustu sýklalyfjaónæmra baktería á heimsvísu. Notkun sýklalyfja í dýraeldi er afar stór áhættuþáttur fyrir þróun sýklalyfjaónæmra baktería sem geta auðveldlega borist yfir í menn með ýmsum leiðum, m.a. með mengaðri fæðu. Á Íslandi er tiltölulega lítil notkun sýklalyfja í dýraeldi. Lítið er vitað um mögulega fylgifiska innfluttra matvæla, m.a. sýklalyfjaónæmar bakteríur. Viðskiptaleg og vísindaleg sjónarmið stangast á er kemur að innflutningi matvæla. Rannsóknir víða að úr heiminum hafa sýnt að sýklalyfjaónæmar bakteríur, þ.á.m. stofnar sem búa yfir breiðvirkum β-laktamösum (e. extended-spectrum β-lactamase, ESBL) og fjölónæmar bakteríur geta leynst í grænmeti, þ.á.m. í salati. Þetta er mikið áhyggjuefni, m.a. vegna getu þeirra til að taka sér bólfestu í meltingarvegi, auk mögulegar miðlunar þeirra á ónæmisgenum til meinvirkra baktería.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að leita að bakteríum af ættbálknum Enterobacterales á magnbundinn hátt í innlendu og erlendu salati, framkvæma tegundagreiningu og næmisprófa valdar tegundir ásamt því að skima fyrir ESBL-myndandi bakteríum.
Efni og aðferðir: 150 innlend og erlend salat- og spínatsýni voru rannsökuð m.t.t. magns og sýklalyfjanæmis baktería af ættbálknum Enterobacterales. Val sýna einskorðaðist við úrval matvöruverslana. Stuðst var við aðferð frá Nordisk Metodikkomité for Næringsmidler (NMKL) fyrir áætlun á bakteríufjölda með tryptone soy agar (TSA) forræktunaræti og violet red bile agar (VRBA) sérhæfðu æti. Skimun fyrir ESBL-myndandi bakteríum var gerð með ceftazidime- og cefotaximebættum MacConkey agar. Valdar Enterobacterales voru næmisprófaðar með 13 mismunandi sýklalyfjum og ESBL staðfestingarpróf gerð á viðeigandi stofnum. Kjarnsýrumögnun fyrir leit að algengustu tegundum ónæmisgena var gerð á ESBL-jákvæðum stofnum. Hönnuð var tilraun til að kanna hvort ónæmiseiginleikar ESBL-myndandi bakteríustofna úr salati gætu flust yfir til E. coli.
Niðurstöður: Af 150 sýnum voru 82 (55%) erlend, 57 (38%) íslensk og 11 (7%) af óþekktum uppruna.
Bakteríur uxu úr 146 sýnum og var bakteríutalning marktækt meiri í erlendum sýnum m.v. íslenskum (p < 0,001). Alls greindist 31 mismunandi bakteríutegund sem tilheyra Enterobacterales og bakteríur
innan Enterobacter cloacae komplex voru algengastar. E. coli greindist úr sex sýnum, öll frá Ítalíu og reyndust stofnarnir allir næmir fyrir þriðju-kynslóðar cephalosporin og ertapenem. Talsverðan
breytileika í bakteríuflóru mátti sjá á milli landa. Sýklalyfjaónæmi reyndist algengara meðal erlendra bakteríustofna (26,2%) en íslenskra (9,1%), sem náði þó ekki tölfræðilegri marktækni (p = 0,0601). Alls innihéldu 11,3% (n = 17) sýnanna ESBL-jákvæðan bakteríustofn sem reyndist í öllum tilvikum vera af tegundinni Rahnella aquatilis. ESBL-ónæmisgen frá Rahnella stofnunum gat flust yfir til E. coli.
Ályktun: Niðurstöður benda til aukins magns baktería og sýklalyfjaónæmis í erlendum sýnum. Klínískt mikilvægar ESBL-myndandi bakteríur eru sjaldgæfar í fersku grænmeti. Þörf er á frekara magnbundnu áhættumati á óæskilegum bakteríum í fersku grænmeti á borð við salat og spínat.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Enterobacterales-í-salati-og-sýklalyfjanæmi-þeirra_Vigdís-Víglundsdóttir_MS.pdf | 2.83 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
20200923132724777.pdf | 639.09 kB | Lokaður | Yfirlýsing |