is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3725

Titill: 
  • Áföll : tilfinningar unglinga eftir áföll, fyrirbyggjandi starf með kennsluáætlun og leiðbeiningum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Við lendum öll í einhvers konar áföllum í lífinu. Þau gera sjaldnast boð á undan sér svo við erum gjarnan óundirbúin og varnarlaus þegar þau ber að. Því er mikilvægt fyrir kennara að vera vel undirbúnir og vita hvernig bregðast skal við þegar áföll verða í nemendahópnum eða innan skólans. Ekki er síður mikilvægt að boðleiðir og samskipti meðal starfsfólks skólans séu í lagi þegar verið er að taka á tilfinningum nemenda. Í þessu lokaverkefni mínu ætla ég að kynna kennsluáætlun og kennsluleiðbeiningar sem koma vonandi að góðum notum við kennslu á unglingastigi. Námsgreinin er lífsleikni og tekur þetta á tilfinningavinnu eftir áföll. Vert er að taka fram að ég er hvorki sálfræðingur né hjúkrunarfræðingur og get því ekki farið að kafa mjög djúpt í viðfangsefnið. Verkefnið er ætlað kennurum til að vera undirbúnir þegar það verða áföll í nemendahópnum. Einnig er ætlunin að undirbúa nemendur og opna huga þeirra fyrir hugtökum eins og sorg, áföll, reiði og söknuður. Verkefninu er skipt í 2 kafla, annars vegar kennsluáætlanir fyrir 4 kennslustundir sem eru mislangar og fjalla um mismunandi tilfinningar. Fjórða og síðasta kennslustundin er verkefnavinna þar sem nemendur nota tilfinningar sem þeir hafa verið að læra að vinna með. Hins vegar eru kennsluleiðbeiningar með áætlununum sem útskýra nákvæmlega fyrir kennaranum hvernig kennslustundin getur verið notuð og hvers er ætlast til af nemandanum. Athygli er vakin á því að þessi áætlun er hugsuð sem fyrir-byggjandi starf fyrir áfall en ekki til að nota eftir að áfall hefur orðið í nemendahópnum. Í kennslunni er stuðst við stutta kvikmynd, All summer in a day, sem sýnir miklar tilfinn-ingar og er hægt að lesa um hana hér að neðan. Af fenginni reynslu veit ég að form ýmissa verkefna henta misvel fyrir nemendahópa og verður hver kennari að ákveða sjálfur hvað hentar best hverju sinni og getur þá aðlagað verkefnin að getu síns nemenda-hóps. Í kennsluáætluninni má sjá mismunandi útfærslu á ákveðnu verkefni með tilliti til mismunandi hópa.
    Unglingar hafa flestir lent í einhverjum áföllum um ævina hvort sem það er andlát í fjölskyldu, skilnaður foreldra, einelti í skóla eða annars konar áfall. Þeir eru viðkvæmir og geta sýnt mismunandi sorgarviðbrögð sem eru jafnvel byggð á fyrri reynslu þeirra. Þeir eru gjarnir á að bæla tilfinningar sínar og einangra eða jafnvel hafna sorginni og því getur verið erfitt að vinna með þær tilfinningar (Gunnar E. Finnbogason, 1998:26). Þar sem unglingar eru ekki gjarnir á að sýna þessar tilfinningar er mikilvægt að gleyma þeim ekki og vinna með þeim líka.
    Það er nokkuð ljóst að tilfinningar eru hluti af lífinu, án tilfinninga væri lífið snauðara. Óhjákvæmilega eru tilfinningasveiflur, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar, hluti af viðvangsefni kennara þegar kemur að kennslu. Sérstaklega geta tilfinningar haft mikil áhrif á nemendur á unglingsárum, unglingarnir breytast hratt og ráða oft illa við hormónasveiflur. Sumir nemendur koma t.d. frá heimilum þar sem eru fjölskyldu-erfiðleikar vegna álags og streitu og það getur endurspeglað tilfinningalegt ójafnvægi nemandans í skólanum. Fyrir kennara í nútímasamfélagi er nauðsynlegt að horfa sérstaklega til tilfinninga nemenda, margt getur orsakað tilfinningalegt ójafnvægi og nægir að nefna ástandið á Íslandi í dag, bankakreppuna sem hefur bein eða óbein áhrif á tilfinningar nemenda (Þráinn Eiríkur Skúlason, 2009).

Samþykkt: 
  • 28.9.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3725


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
afoll_fixed.pdf285.06 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna