is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/37305

Titill: 
  • Réttindi námsfólks til framfærslu í atvinnuleysi: „... fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt.“
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Áhrif kórónuveirufaraldursins á árinu 2020 og áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn útbreiðslu hans leiddu til umræðu um stöðu ýmissa þjóðfélagshópa sem sáu fram á erfiða fjárhagsstöðu. Þar á meðal var námsfólk. Með breytingarlögum nr. 134/2009 á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, var réttur námsfólks til atvinnuleysisbóta í námshléum afnuminn. Sumarið 2020, í miðjum heimsfaraldri, var því útlit fyrir að námsfólk hefði hvorki aðgang að atvinnuleysistryggingakerfinu, sbr. 6. mgr. 14. gr. atvinnuleysistryggingarlaga, ef engin sumarvinna fengist, né heldur námslánakerfinu sem lánar aðeins níu mánuði ársins meðan nám er stundað. Upplifði námsfólk sig margt bjargarlaust og eftir stóð að fólk gæti þurft að treysta á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Afleiðingar kórónuveirufaraldursins gáfu því tilefni til að kanna betur réttarstöðu námsfólks í atvinnuleysi.
    Í ritgerðinni er leitast við að skýra og gera grein fyrir réttarstöðu námsfólks í atvinnuleysi og rétt þeirra til framfærslu. Atvinnuleysistryggingarkerfið, námslánakerfið og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga voru skoðuð, sem og sérgreindar aðgerðir sem höfðu áhrif á réttarstöðu námsfólks í heimsfaraldri, auk þess sem viðfangsefnið var kannað í ljósi kynjaðra fjármála. Réttur námsfólks hvað þetta varðar er gloppóttur, kerfin benda hvert á annað og hvergi virðist tryggt að námsfólk fái aðstoð.
    Íslenskur réttur virðist ekki taka mið af þeim raunveruleika að meirihluti námsfólks vinnur samhliða námi og yfirgnæfandi meirihluti námsfólks vinnur í námshléum. Greitt er atvinnutryggingagjald af launum þessa fólks, sem myndar um 8,5% vinnuafls landsins, í atvinnuleysistryggingasjóð en námsfólk á ekki rétt úr sjóðnum, ekki einu sinni þegar námslánakerfið stendur ekki til boða. Meirihluti námsfólks er konur, hærra hlutfall kvenna en karla vinnur samhliða námi og eru vísbendingar um að hið sama eigi við í námshléum. Íslenskur réttur virðist ekki taka mið af því, og stjórnvöld hafa ekki greint hvernig þessi takmörkun á réttindum námsfólks samræmist kynjaðri fjárlagagerð. Þá hafa fæst sveitarfélög tekið mið af skýrum skilaboðum úrskurðarnefnda um að reglur um fjárhagsaðstoð sem takmarka rétt námsfólks til aðstoðarinnar leiði til þess að brotið sé gegn skyldubundnu mati stjórnvalda. Þá telur höfundur tilefni til að skoða betur ákvarðanir Menntasjóðs námsmanna á frítekjumarki lántaka og líkur séu á að þær hafi ekki verið í fullu samræmi við birtar úthlutunarreglur. Höfundur telur fullt tilefni til að endurskoða 6. mgr. 14. gr. atvl. og breyta reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð handa námsfólki.

Samþykkt: 
  • 5.1.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/37305


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
JonaThoreyPetursdottir meistararitgerd skil.pdf1.68 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
scanskemna.pdf417.1 kBLokaðurYfirlýsingPDF