Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37400
Styttur í almenningsrými Reykjavíkur gegna mikilvægu hlutverki, þær eru hluti af
menningarminni þjóðarinnar og miðla áfram upplýsingum um samfélag fortíðar. Á fyrri
hluta 20. aldar var fjöldi styttna af körlum reistar í almenningsrými Reykjavíkur en
engar af nafngreindum konum. Í dag eru minnismerki nafngreindra kvenna fjögur, þar
af ein stytta í fullri stærð. Styttur af ónafngreindum konum, sem margar hverjar eru
naktar og vísa til móðurhlutverksins, eru aftur á móti 21. Markmið þessarar ritgerðar er
að skoða út frá kynjasögulegu sjónarhorni ástæðu þess hve fáar styttur af nafngreindum
konum er að finna í almenningsrými Reykjavíkur.
Undir lok 20. aldar breyttist viðhorf gagnvart styttum en þá þóttu styttur á
stöllum nokkuð gamaldags og listamenn byrjuðu að taka þær niður og gera listaverk sín
þannig aðgengilegri almenningi. Þegar farið var að rannsaka sögu kvenna og þátt þeirra
í mótun þjóða kom í ljós að tilvist þeirra á þessu sviði hafði að mestu verið sópað undir
teppið. Sagnaritun var að mestu karllæg og ekki var talin þörf á að minnast á upplifanir
og þátttöku kvenna í menningarminni þjóða. Slík viðhorf hafa átt þátt í því að færri
styttur hafi verið reistar af nafngreindum konum en körlum.
Á 21. öldinni má þó segja að viðhorfið hafi breyst hér á landi, sem og í öðrum
löndum, á ný. Umræða hefur átt sér stað um að reisa þurfi fleiri styttur af nafngreindum
konum í almenningsrými borga þar sem að styttur séu mikilvægur hluti af þjóðarminni
samfélaga. Því sé mjög mikilvægt að leiðrétta þann kynjamismun sem er til staðar
meðal styttna í almenningsrými borga. Af þeim sökum þyrfti að koma fleiri
nafngreindum konum á stall og móta af þeim styttur í fullri stærð. Það er hins vegar afar
kostnaðarsamt og hið opinbera eða stjórnvöld hafa ekki litið svo á að það væri í þeirra
verkahring að kosta listaverk í almenningsrými. Það hefur því verið í höndum
einstaklinga eða samtaka að taka að sér slík verkefni og afla fjár til þess.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-lokaritgerd.pdf | 1,17 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.pdf | 231,11 kB | Lokaður |