Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37435
Sjávarútvegur hefur um langa tíð verið einn meginnatvinnuvegur Íslendinga. Sjómenn, þ.e.a.s. þeir sem hafa atvinnu af því að sækja sjóinn og fiska, voru á fyrri hluta 20. aldar stór hluti af íslenskum atvinnumarkaði, og mynduðu stóran markhóp. Mikið efni var gefið út með sjómenn í huga, meðal annars tímarit, en segja má að ákveðið blómaskeið tímarita sjómanna hafi verið á fjórða áratug 20. aldar, en viðfangsefni þessarar ritgerðar, Sjómannadagsblaðið, hóf göngu sína árið 1938.
Í þessari rannsókn er ætlunin að skoða þær karlmennskuímyndir sem koma fram í umfjöllun Sjómannadagsblaðsins í tölublöðum sem út komu á fyrsta áratug útgáfu þess, 1938–1948. Ólíkt öðrum sjávarútvegstímaritum þess tíma sneri umfjöllun Sjómannadagsblaðsins meira að reynsluheimi sjómanna frekar en málefnum sjávarútvegsins í heild sinni. Því er nánari athugun á innihaldi blaðsins kjörin vettvangur til þess að kanna hvaða hugmyndir um karlmennsku voru ríkjandi meðal sjómanna sjálfra á áðurnefndu tímabili, og þær hugmyndir sem ríktu meðal almennings um sjómenn, með því að taka til athugunar hvaða hegðun, einkenni og gildi þóttu eftirsóknarverðust í fari sjómanna.
Karlmennskuhugmyndir Sjómannadagsblaðsins hafa hér verið flokkaðar í hugmyndir um líkamlega karlmennsku, á borð við líkamlegt hreysti, styrk og dugnað, og andlega karlmennsku, svo sem hugrekki, rólyndi og staðfestu. Dregin verður fram mynd af því sem þótti ókarlmannlegt, og karlmennska sjómanna borin saman við hugmyndir um karlmennsku annarra sem störfuðu um borð á skipum, s.s. húshaldsfólks og loftskeytamanna. Áherslur varðandi hvað skiptir mestu máli í fari karlmannlegs sjómanns þróast hjá þeim sem rita Sjómannadagsblaðið á tímabilinu sem tekið er fyrir, og spila þar inn í þættir á borð við réttindabaráttu sjómanna, hugmyndir almennings og seinni heimstyrjöldin, sem breytti eðli starfs sjómanna til muna. Þetta er hér tekið til athugunar út frá hugmyndum kynjasögunnar um karlmennsku (e. masculinity), og orðræðugreiningu (e. discourse analysis) á innihaldi Sjómannadagsblaðsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LOKA-Tómas Helgi-Djarfir synir.pdf | 794,9 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
THS_hi_kapa_0818_isl.pdf | 374,89 kB | Lokaður | |||
Tómas_Helgi_Yfirlýsing.pdf | 191,53 kB | Lokaður | Yfirlýsing |