Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/37683
Krísusamskipti bandarísku lögreglunnar í #blacklivesmatter mótmælunum verða til umfjöllunar í þessari ritgerð og þau borin saman við helstu kenningar í krísustjórnun og krísusamskiptum. Með krísusamskiptum er átt við það hvernig brugðist er við krísu og hvernig henni er svarað. Þá verður sérstaklega litið til kennninga Timothy Coombs, sérfræðings á sviðum samskipta og almannatengsla. Sýnt verður fram á hvernig viðbrögð og aðgerðir lögreglu eftir morðið á George Floyd sköpuðu krísu ofan á krísu og juku þann vanda sem lögregla og yfirvöld í Minneapolis, og raunar Bandaríkjunum öllum, stóðu frami fyrir.
Kenningar í krísusamskiptum og krísustjórnun flokkast undir almannatengsl og snúast að miklu leyti um viðbrögð og svaranir við krísum, en einnig um forvarnir. Samkvæmt kenningunum eru til svokallaðar bestu aðgerðir (e. best practices) þegar kemur að krísustjórnun, það er að segja hvernig best er að haga samskiptum og aðgerðum fyrir krísu, á meðan krísu varir og eftir krísu. Þessi uppskrift er nánast alltaf sú sama en fer þó að einhverju leyti eftir flokkun krísu. Krísum er yfirleitt skipt upp í þrjá flokka: óvilja krísur, afstýranlegar krísur og hamfarir. Ábyrgð þeirra aðila sem krísan snertir er svo mismikil eftir hvaða flokki krísan tilheyrir.
Sú krísa sem lögreglumennnirnir fjórir frá Minneapolis sköpuðu með því að myrða George Floyd í handtöku var afstýranleg krísa. Í kjölfarið mynduðust fleiri krísur eða krísa ofan á krísu, eins og það hefur verið kallað í almannatengslum. Er það bæði sú upphaflega og þær sem á eftir fylgdu sem verða skoðaðar hér. Unnið verður útfrá rannsóknarspurningunni „hvernig skapaði bandaríska lögreglan krísu ofan á krísu með viðbrögðum sínum við #blacklivesmatter mótmælunum?“
Sýnt verður fram á hvernig krísusamskipti bandarísku lögreglunnar og yfirvalda hefðu getað verið skipulagðari og hvernig margar af þeim krísum sem urðu til voru afstýranlegar. Þó að hér verði viðbrögð og aðgerðir lögreglu skoðaðar út frá kenningum í krísusamskiptum liggur rót vandans dýpra í sögu og menningu bandarísku þjóðarinnar en hægt er að greina með almannatengslum. Grunnurinn að þessum vanda er rótgróin kerfisbundin kynþáttahyggja. Hér verður því aðeins litið á viðbrögð lögreglu og yfirvalda eftir morðið á George Floyd og í mótmælaöldunni sem gaus upp í kjölfarið. Farið verður yfir hvaða tegundir krísa urðu til og hvernig lögreglan svaraði þeim. Þá verður einnig farið yfir hvernig hægt hefði verið að bregðast öðruvísi við þessum krísum með því að nota bestu aðgerðir krísustjórnunnar og sýnt verður hvernig krísusamskiptaáætlun hefði mögulega afstýrt stórum hluta þeirra krísa sem upp hafa komið í kjölfar þeirrar fyrstu.
This thesis focuses on the crisis communication of the US Police during the #blacklivesmatter movement. The actions of the police during the protests will be looked at and compared to crisis communication theories in the field of public relations; especially those of Timothy Coombs who is a leading expert in the field of crisis communication and management. This thesis will take a look at how the actions of the US Police created crisis upon crisis and increased the problem yet to be solved.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LunaGretudottir_BA_lokaverk.pdf | 893.4 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |