Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37760
Faraldsfræði fjöllyfjanotkunar í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu 2010-2019
Inngangur: Lyfjum getur fylgt áhætta og slæmar heilsufarslegar afleiðingar. Áhættan eykst eftir því sem lyfin verða fleiri. Margar faraldsfræðirannsóknir hafa verið gerðar á fjöllyfjameðferð erlendis en skortur hefur verið á þeim hérlendis. Rannsóknir sýna að fjöllyfjameðferð er víða að aukast enda eru flest samfélög að eldast. Þó hafa niðurstöður á faraldsfræði fjöllyfjameðferðar oft verið ansi ólíkar milli samfélaga, til dæmis varðandi algengi og hvernig fjöllyfjameðferð er að þróast. Markmið þessarar rannsóknar var að gera ítarlega greiningu á algengi fjöllyfjameðferðar innan höfuðborgarsvæðisins og flokka með tilliti til aldurs og kyns. Rýnt var í helstu lyfjaflokka þýðisins og niðurstöður bornar saman við fyrirliggjandi erlendar rannsóknir.
Efni og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af einstaklingum sem höfðu fengið ávísað fimm eða fleiri mismunandi lyfjum í heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu á því tímabili sem verið var að skoða. Sótt voru gögn um allar lyfjaávísanir einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og þeir fundnir sem höfðu fengið ávísað fimm eða fleiri lyfjum í Sögu-gagnagrunni Heilsugæslunnar frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2019.
Niðurstöður: Algengi fjöllyfjameðferðar hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2010-2019. Sterk tengsl voru á milli aldurs og fjöllyfjameðferðar og voru konur mun líklegri til að vera í fjöllyfjameðferð (P < 0,05). Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að hlutfallslega mesta aukning fjöllyfjameðferðar og mikillar fjöllyfjameðferðar var meðal ungs fólks á aldrinum 20-50 ára. Greining á ATC flokkum leiddi í ljós að mikil aukning var á flestum fyrsta og þriðja stigs ATC flokkum.
Álytkanir: Niðurstöðurnar benda til þess að fjöllyfjameðferð sé algeng á Íslandi. Að sama skapi virðist hún vera að færast neðar í aldur. Mikilvægt er að reyna að skilja orsök þeirrar þróunar sem hefur orðið og leggja mat á sífellt aukna lyfjavæðingu samfélagsins. Ástæður sem geta legið þar að baki geta bæði verið jákvæðar og neikvæðar rétt eins og þau áhrif sem af fjöllyfjameðferð hljótast.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
YfirlysingummedfererdlokaverkefnaDagur.pdf | 359,9 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
DAFHmasterslokaskjal-converted.pdf | 2,08 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |