Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37768
Inngangur. Almenn aukning var í notkun lyfja í flokkum N05 og N06 hjá börnum og unglingum á árunum 2003-2007. Einnig voru lyfjaávísanir til þessa aldurshóps mun fleiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum árið 2017. Jafnframt sást notkun geðrofslyfja hjá börnum á leikskólaaldri en það var nánast óþekkt á hinum Norðurlöndunum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort áfram væri aukning á geðlyfjanotkun þessa aldurshóps og hvort lyfjamynstrið hefði breyst á 10 ára tímabili.
Efni og aðferðir Skoðaðar voru lyfjaávísanir til barna 0-18 ára úr ATC flokkum N05/N06 í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) árin 2010-2019. Framkvæmd var afturskyggn gagnarannsókn. Niðurstöður voru settar fram með lýsandi tölfræði. Tengsl milli breyta kannaðar, notast var við krosstöflur og Kí-kvaðrat próf ásamt Bonferroni leiðréttingu.
Niðurstöður Heildarfjöldi lyfjaávísana jókst á rannsóknartímabilinu um 103%. Hjá drengjum var aukning um 92% en um 120% meðal stúlkna. Drengir fengu fleiri lyfjaávísanir eða 55% á móti 45% hjá stúlkum. Algengi lyfjanotkunar jókst í öllum aldurshópum beggja kynja fyrir utan
aldurshópinn 5-9 ára. Tveir stærstu ATC flokkarnir sem ávísað var úr voru N06B (örvandi- og ADHD lyf) og N06A (þunglyndislyf) hjá báðum kynjum, lítil breyting var á ávísunum úr þessum flokkum gegnum rannsóknartímabilið. Heildarfjöldi lyfjaávísana yfir rannsóknartímabilið var mestur í aldurshópnum 15-18 ára hjá stúlkum og jókst fjöldinn um 127% á rannsóknartímabilinu. Drengir fengu að öðru leiti fleiri ávísanir í öðrum aldurshópum.
Ályktanir. Ljóst er að lyfjanotkun barna og unglinga hefur aukist á undanförnum árum. Fróðlegt verður að fylgjast með því áfram hvort aukningin heldur áfram á sama hraða eða hvort
einhverju jafnvægi sé náð. Ef svo er má velta því upp hvort um vangreiningar hafi verið um að ræða á árum áður, sem gæti skýrt þessa aukningu
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
lokaeintak 16.apríl.pdf | 1,11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing 19.apríl.pdf | 231,07 kB | Lokaður | Yfirlýsing |