Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37862
Stór partur af lífi einstaklinga er að vera útivinnandi í þeim tilgangi að afla tekna til að hafa í sig og á. Fjöldinn allur af störfum eru til og innan hverrar skipulagsheildar er ákveðinn valdastigi. Þá má sjá suma einstaklinga sækjast í að verða stjórnendur á meðan aðrir vilja einvörðungu sinna sínum störfum án þess að stjórna.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort ástríða einstaklinga að sækjast í stjórnunarstöður gæti skýrst af persónuleikaþáttum þeirra. Tvö líkön varðandi persónuleika voru könnuð í þessu samhengi; annars vegar stóra fimm þátta líkanið og hins vegar hin myrka þrenning. Persónuleikaþættir hvors líkans fyrir sig voru kannaðir í tengslum við tvær víddir ástríðu; annars vegar uppbyggilega ástríðu og hins vegar þráhyggju ástríðu. Þá var einnig markmiðið að kanna hvaða þættir persónuleikalíkananna skýrði betur víddir ástríðunnar. Alls svöruðu 789 einstaklingar rafrænum spurningalista sem var hannaður út frá fyrri rannsóknum.
Niðurstöður sýndu að persónuleiki skýrir ástríðu fólks að sækjast í stjórnunarstöður. Þá sýndi líkan hinnar myrku þrenningar meiri skýringarmátt fyrir bæði uppbyggilega og þráhyggju ástríðu og var persónuleikaþátturinn sjálfsdýrkun með sterkasta sambandið við báðar víddir ástríðunnar. Í stóra fimm þátta líkaninu var þátturinn úthverfa með sterkasta sambandið við báðar víddir ástríðunnar.
Þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar svo vitað sé þar sem tekin eru fyrir tvö persónuleikalíkön og athuguð tengsl við tvær víddir ástríðu til að sækjast í stjórnendastöður. Það er áhugavert að sjá hvaða einstaklingar eru líklegri að sækjast í stjórnendastöður, enda hafa þeir mikil áhrif innan vinnustaða þegar þeir komast í lykilstöður og geta þannig haft áhrif á aðra einstaklinga innan skipulagsheildarinnar.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Ástríða til að komast í stjórnendastöðu.pdf | 609,39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna_VHH.pdf | 439,65 kB | Lokaður | Yfirlýsing |