Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/37879
Bakgrunnur: Flóknar breytingar verða á líffærakerfum nýbura við fæðingu sem gerir þeim fært að lifa sjálfstæðu lífi utan móðurkviðar. Þessar breytingar setja nýbura í aukna hættu á versnun (e. deterioration) lífeðlisfræðilegra einkenna og getur klínískt ástand þeirra versnað mjög hratt og snemmkomin merki verið óljós. Matstæki hafa verið þróuð til að meta einkenni versnunar hjá nýburum og þar með möguleika á að bæta útkomu þeirra með snemmtækri íhlutun. Ekkert slíkt matstæki hefur verið þýtt á íslensku. Eitt af þessum matstækjum er NEWTT sem skilgreinir ekki aðeins nýbura sem eru í áhættu á versnun klínískra einkenna heldur gefur einnig leiðbeinandi fyrirmæli um mat á lífsmörkum og einkennum ásamt viðbrögðum við óeðlilegum gildum.
Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt: Að þýða NEWTT matstækið á íslensku, staðfæra og aðlaga að verklagi LSH og kanna hvort notkun matstækisins sé leiðbeinandi við mat á lífsmörkum og einkennum nýbura.
Aðferð: NEWTT matstækið var þýtt úr ensku á íslensku í fjórum skrefum samkvæmt leiðbeiningum MAPI Research Trust: frumþýðing, bakþýðing, forprófun og prófarkalestur. Hentugleikaúrtak var notað til að velja 22 hjúkrunarfræðinga/ljósmæður sem starfa við umönnun nýbura á höfuðborgarsvæðinu til að meta þýðingu og notagildi matstækisins.
Niðurstöður: Þátttakendur forprófunarinnar voru mjög sammála um að NEWTT matstækisið sé gagnlegt við mat á lífsmörkum nýbura. Engin stöðluð matstæki til þess að meta lífsmörk og einkenni nýbura voru í notkun á þeim starfseiningum sem forprófunin var gerð á. Allir hjúkrunarfræðingarnir/¬ ljósmæðurnar (n=22) voru sammála eða mjög sammála því að leiðbeiningar um hvenær og hvernig eigi að bregðast við versnun á lífsmörkum og einkennum nýbura séu skýrar.
Ályktun: Íslensk útgáfa NEWTT matstækisins er einföld og auðveld í notkun við mat á lífsmörkum og einkennum nýbura. Innleiðing þess getur einfaldað og stytt mat á lífeðlisfræðilegum einkennum nýbura og bætt þar með heilsu og lifun þeirra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
skemman samþ.pdf | 310.77 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
MS_verkefni_Guðrún.pdf | 2.89 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |