Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37892
Bakgrunnur: Sjúklingar sem fengið hafa barkaraufartúbu til skamms tíma vegna alvarlegra veikinda verða sífellt fleiri á sjúkrahúsum á Íslandi og líklegt þykir að þeim eigi eftir að fjölga. Þrátt fyrir marga kosti sem fylgja barkaraufartúbum eru ýmsir kvillar sem mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar viti af og þekki aðferðir til að draga úr þeim. Meðal þeirra eru þrýstingssár, kyngingarörðugleikar, veiking raddbanda, þrenging á barka og túbustopp. Þar sem þessi sjúklingahópur er fámennur þegar á heildina er litið er ekki algengt að hjúkrunarfræðingar sinni þeim og vegna alvarleika aukaverkana er nauðsynlegt að til sé verklag byggt á gagnreyndri þekkingu fyrir hjúkrunarfræðinga um helstu þætti sem skipta máli í umönnun sjúklinga með skammt tíma barkaraufartúbu.
Markmið: Að samþætta íhlutanir í hjúkrun sjúklinga sem eru á sjúkrahúsi með skammtíma barkaraufartúbu. Tilgangurinn er undirbúningur verklags um umönnun og eftirlit sjúklinga með skammtíma barkaraufartúbu sem dvelja á sjúkrahúsi til að tryggja öryggi þeirra og koma í veg fyrir fylgikvilla.
Aðferð: Kerfisbundin fræðileg samantekt unnin eftir PRISMA leiðbeiningunum. Leitað var megindlegra og eigindlegra rannsókna/yfirlita í PubMed/Medline, CINAHL og Web of Science birtum á árunum 2010 til 2021 og takmarkaðar við sjúklinga á sjúkrahúsi 18 ára og eldri sem höfðu fengið barkaraufartúbu á gjörgæsludeild. Rannsóknargreinarnar voru gæðametnar samkvæmt gæðamatsstöðlum Joanna Briggs Institute.
Niðurstöður: Alls voru 11 greinar valdar í yfirlitið. Fáar rannsóknir eru til um íhlutanir hjúkrunarfræðinga. Hægt var að setja fram tillögur að breyttri eða endurskoðaðri umönnun þátta er lúta að vali á rakagjafa, meðhöndlun loftblöðru, mat á kyngingarörðugleikum og aukið eftirlit með viðkvæmum hópum eins og sjúklingum í ofþyngd sem eru útsettari fyrir fylgikvillum skammtíma barkaraufartúbu.
Ályktun: Með því að samþætta hjúkrunarþætti sjúklinga á sjúkrahúsi sem eru með barkaraufartúbu er mögulega hægt að draga úr fylgikvillum og bæta útkomu sjúklinga.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ReginaBodvarsdottir_MS_Ritgerd.pdf | 2.21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Lokaverkefni-undirskrift.pdf | 563.85 kB | Lokaður | Yfirlýsing |