Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37893
Ritgerð þessi er 30 ECTS – einingar í MPA- opinberri stjórnsýslu og er markmið hennar að skoða hvernig kynjaskipting starfa innan stjórnsýslu sveitarfélaga er. Ástæða rannsóknar er að höfundur telur að mikill meirihluti kvenna vinni við stjórnsýslu sveitarfélaga og leggur fram þá tilgátu að kynjahalli innan ráðhúsa sveitarfélaga sé á þann veg að mikill meirihluti kvenna vinni við velferðar- og fræðslumál og mikill meirihluti karla vinni við umhverfis- og skipulagsmál. Höfundur skoðar sérstaklega stjórnendastöður hjá sveitarfélögunum og hvort þær endurspegli kynjahlutföll starfa innan stjórnsýslunnar eða hvort fleiri karlar sitji á toppnum þó fleiri konur starfi á gólfinu. Markmiðið er að safna saman á einn stað upplýsingum um skiptingu starfa innan stjórnsýslu sveitarfélaga, greina frá hvaða kyn sækjast í hvaða störf og hvort að jöfn tækifæri séu fyrir kynin á vinnumarkaðnum og stjórnendastöðum.
Rannsóknaraðferðin sem notuð var er klassísk innihaldsgreining (e. Classical content analysis). Klassísk innihaldsgreining er kerfisbundin greining þar sem miklu magni af upplýsingum er safnað saman og skipt upp í sameiginleg einkenni. Störfin voru flokkuð eftir þessháttar kerfi, sem fólst í því að skipta stjórnsýslu sveitarfélaga upp eftir sviðum, störfum og kynjum. Almenn umfjöllun er um skipurit sveitarfélaga og rekstur þeirra ásamt umræðu um kynskiptan vinnumarkað.
Gögnin eru greind með kynjasjónarmið að leiðarljósi og velt er upp kynjasamþættingu stofnana og mismunandi gerðir starfa, eins og af hverju fleiri konur vinna við almenn skrifstofustörf en fleiri karlar vinna við skipulagssvið. Sérstakur gaumur er gefinn að stjórnendum innan sveitarfélaga og kynjahlutfalli þeirra.
Við greiningu á gögnum var litið til kynjakenninga eins og glerþakið (glass ceiling), glerbrúnin (glass cliff), rúllustigann (escalator) og láréttan og lóðréttan kynjahalla (Horizontal and vertical gender segregation).
Helsta niðurstaða greiningarinnar er að mikill meirihluti starfsmanna stjórnsýslunnar eru konur, eða yfir 70% starfsmanna. Mikill meirihluti þeirra vinnur við fræðslu-, frístunda- og velferðarmál. Þó svo að karlmenn séu í miklum minnihluta við störf innan þessara sviða er hlutfall þeirra þegar kemur að stjórnun innan sviðanna hátt. Greiningin leiðir líka í ljós að mikill meirihluti starfsmanna sem vinna við skrifstofur sveitarfélaga eru konur og meirihluti starfsmanna sem vinna við skipulags- og umhverfismál eru karlar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
FríðaStefánsdóttir_MPA.ritgerð.pdf | 1,37 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing vegna lokaverkefnis.pdf | 323,16 kB | Lokaður | Yfirlýsing |