Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3790
Umboðsmaður Alþingis starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Starfssvið umboðsmanns hefur verið markað nokkuð rúmt og tekur það til langflestra þátta stjórnsýslunnar. Nánar er fjallað um það í 1. mgr. 3. gr. áðurnefndra laga, en samkvæmt ákvæðinu tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt tekur það til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.
Umboðsmaður starfar í umboði Alþingis og er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997 og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga geta allir, sem telja að handhafi opinbers valds hafi beitt sig rangindum, kvartað til umboðsmanns Alþingis og gildir þá einu hvort um einstaklinga eða lögaðila er að ræða eða hverrar þjóðar menn eru. Kvörtun þarf að uppfylla tiltekin formskilyrði til þess að hljóta meðferð hjá umboðsmanni, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og 5. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geta lyktir máls orðið með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 10. gr. laganna. Getur umboðsmaður þá meðal annars látið í ljós álit sitt á því hvort tiltekin athöfn stjórnvalds sé í samræmi við lög eða að öðru leyti vandaða stjórnsýsluhætti. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint til þess tilmælum um úrbætur, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Álit umboðsmanns eru ekki bindandi, hvorki fyrir borgara né stjórnvöld.
„Það er undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum. Í þessari reglu, sem almennt er nefnd lögmætisreglan, felst annars vegar að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og hins vegar að þær mega ekki vera í andstöðu við lög.“ Það sjónarmið býr að baki lögmætisreglunni að eingöngu hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi hafa vald til þess að setja athafnafrelsi borgaranna skorður með lögum, þó innan ramma stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (hér eftir skammstöfuð stjskr.). Stjórnvöld geta því almennt ekki upp á sitt einsdæmi íþyngt borgurunum með ákvörðunum sínum án sérstakrar heimildar í lögum. Tekið skal fram að hér eftir verða hugtökin lög og lagaákvæði aðeins notuð yfir almenn lög, þ.e. lög sem Alþingi setur og forseti Íslands eða handhafar forsetavalds staðfesta með undirritun sinni.
Í ljósi þýðingar lögmætisreglunnar í íslenskum rétti gefur það auga leið að veigamikill þáttur í lögfræðilegri úrlausn umboðsmanns Alþingis um það hvort athöfn stjórnvalds sé í samræmi við lög í einstökum tilvikum er túlkun þess lagaákvæðis eða lagaákvæða sem kveða á um valdheimildir viðkomandi stjórnvalds. Markmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir þeim lögskýringaraðferðum sem lagðar eru til grundvallar í álitum umboðsmanns Alþingis við túlkun á þeim lagaákvæðum sem teljast til reglugerðarheimilda. Leitast verður við að lýsa þeim lögskýringarsjónarmiðum og lögskýringarleiðum sem umboðsmaður byggir á og draga ályktanir um vægi einstakra sjónarmiða. Í upphafi er nauðsynlegt að skýra nánar hvað felst í hugtakinu reglugerðarheimild og um það fjallar kafli 2. Í kafla 3 er gerð grein fyrir þeim lögskýringaraðferðum við túlkun reglugerðarheimilda sem birtast í álitum umboðsmanns Alþingis. Að lokum verða niðurstöður dregnar saman í kafla 4.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
RitgerdFridrik_fixed.pdf | 279,23 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |