Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37911
Bakgrunnur: Óskilgreint er hvenær sjúklingar á gjörgæslu eiga helst að losa hægðir. Algengt viðmið er að sjúklingar á gjörgæslu sem ekki losa hægðir í þrjá til sex daga hafi síðbúna hægðalosun. Meingerð síðbúinnar hægðalosunar gjörgæslusjúklinga er óútskýrð að mestu en talin vera samspil til dæmis þarmahreyfinga, lyfja, fæðu og alvarleika veikinda. Síðbúin hægðalosun tengist mögulega útkomu gjörgæslusjúklinga líkt og tímalengd öndunarvélameðferðar og tímalengd gjörgæslulegu. Rannsóknir á hægðalyfjameðferð gjörgæslusjúklinga eru fáar og ekki ljóst hvenær né með hvaða lyfjum best er að framkalla hægðalosun. Mikilvægt er að varpa frekara ljósi á hægðalosun og hægðalyfjameðferð gjörgæslusjúklinga og tengslum þeirra þátta við útkomu sjúklinga í gjörgæslulegu.
Markmið: Að lýsa hvenær gjörgæslusjúklingar losa hægðir, hvenær þeir fá hægðalyf og bera saman hægðalosun, bakgrunnsbreytur og klínískar breytur sjúklinga með síðabúna hægðalosun og ekki síðbúna hægðalosun í gjörgæslulegu.
Aðferð: Afturskyggn lýsandi samanburðarrannsókn á gjörgæslusjúklingum Landspítala ≥18 ára sem voru ≥120 klukkustundir á gjörgæslu (N=222). Þáttakendum var skipt í rannsóknarhóp með síðbúna hægðalosun (n=139) og samanburðarhóp ekki með síðbúna hægðalosun (n=83). Útilokunarskilyrði voru sjúklingar sem nærðust ekki um meltingarveg og höfðu sértæk vandamál frá kvið sem innlagnarástæðu á gjörgæsludeild. Síðbúin hægðalosun var skilgreind sem fyrsta hægðalosun á fimmta degi gjörgæslulegu eða seinna. Gögnum var aflað úr CIS gjörgæsluskráningarkerfinu.
Niðurstöður: Það voru 185/222 (83%) sjúklingar sem losuðu hægðir í gjörgæslulegu. Meðaltal daga fyrstu hægðalosunar var fimmti dagur gjörgæslulegu (M=5,0). Það voru 192/222 (86%) sjúklingar sem fengu hægðalyf í gjörgæslulegu. Ekki var munur á lengd gjörgæslulegu (p=0,768) og lengd öndunarvélameðferðar (p=0,352) milli sjúklinga með síðbúna hægðalosun og sjúklinga ekki með síðbúna hægðalosun. Sjúklingar með síðbúna hægðalosun voru dýpra svæfðir á fjórða degi gjörgæslulegu samanborið við sjúklinga sem ekki voru með síðbúna hægðalosun (p=0,026).
Ályktun: Markviss hægðalyfjameðferð gæti verið gagnleg gjörgæslusjúklingum. Djúp svæfing gjörgæslusjúklinga virðist seinka hægðalosun þeirra á gjörgæsludeild.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
3.5.2021 Loka AnitaAagestad.pdf | 1.93 MB | Lokaður til...03.05.2026 | Heildartexti | ||
Skanni_20210504.pdf | 16.23 MB | Lokaður | Yfirlýsing |