is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/37973

Titill: 
  • Ætlar þetta engan enda að taka? Langvarandi ágreiningur foreldra um forsjá, lögheimili og umgengni
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Löggjöf á sviði barnaréttar hefur tekið miklum breytingum, allt frá setningu fyrstu heildstæðu barnalaganna nr. 9/1981 en efnisreglur laganna bera þess skýrlega merki. Sífellt meiri áhersla hefur verið lögð á sameiginlega ábyrgð beggja foreldra á uppeldi og umönnun barns. Upphaf þess má í raun rekja til jafnréttisbaráttu 8. áratugar 20. aldar en fór þó fljótlega að snúa að rétti barns til sameiginlegrar ábyrgðar beggja foreldra, m.a. vegna áhrifa frá alþjóðasamningum á borð við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Árið 2006 var sameiginleg forsjá gerð að meginreglu eftir skilnað eða sambúðarslit foreldra en almennt er talið barninu fyrir bestu að foreldrar farið sameiginlega með forsjá þess. Flestum foreldrum tekst, án mikilla vandkvæða, að fara sameiginlega með forsjána en það gengur þó ekki alltaf eins og í sögu. Aukin áhersla hefur verið lögð á ráðgjöf og sættir foreldra sem tekst illa að ná samkomulagi um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis og umgengnis sem birtist einna helst í ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 um sérfræðiráðgjöf, sáttameðferðir og sáttahlutverk dómara. Markmið úrræðanna er að aðstoða foreldra við að komast að samkomulagi enda er almennt talið að hagsmunum barns sé best borgið ef foreldrar ná samkomulagi um framangreind atriði.
    Ágreiningur foreldra hefur alltaf áhrif á börn þeirra en þó í mismunandi mæli. Þegar foreldrar eiga t.a.m. í umfangsmiklum og meiriháttar ágreiningi getur það komið verulega illa niður á börnum þeirra. Ágreiningur foreldra getur einnig verið langvarandi. Deilur foreldra ná þá yfir lengra tímabil en viðkomandi málsmeðferð aðila nær yfir, t.a.m. með undangegnum samningi, úrskurði, dagsektarmáli, aðfararmáli eða jafnvel dómi. Slíkur ágreiningur getur þá ýmis verið viðvarandi eða ekki en svo virðist sem foreldrar eigi þá erfitt með að finna endanlega lausn á ágreiningi sínum.
    Í ritgerðinni er leitast við að varpa ljósi á langvarandi deilur foreldra um forsjá, lögheimili og umgengni. Litið var til dómaframkvæmdar Landsréttar og Hæstaréttar á tímabilinu 1995-2020 með það fyrir augum að greina eðli langvarandi ágreinings foreldra og skoða hvort slíkum málum hefur fjölgað. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að málunum hefur, hið minnsta, ekki farið fækkandi og mikill meirihluti forsjár- og lögheimilismála virðist snúast um langvarandi ágreining foreldra. Áhugavert var að líta til stöðu mála í Noregi og Danmörku og hvort framkvæmdin þar í löndum gæfi tilefni til mögulegra breytinga hér á landi en metnaðarfullar breytingar hafa átt sér stað í Danmörku með stofnun Fjölskylduréttarhúss og fjölskyldudómstóls. Höfundur telur að ákveðnir þættir „danska kerfisins“ gætu nýst hér á landi við lausn langvarandi ágreiningsmála. 

Samþykkt: 
  • 5.5.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/37973


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Freyja Sigurgeirsdottir .pdf1.45 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis .png1.13 MBLokaðurYfirlýsingPNG