Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/37981
Til þess að nýsköpun geti brotist fram og fundið frjósaman jarðveg til að vaxa og dafna verður að vera til stuðningsumhverfi sem hlúir að þeim vexti og áframhaldandi þróun. Á undanförnum árum hafa nýsköpun og frumkvöðlar orðið vinsælt umræðuefni hins almenna borgara og hafa áhrif þeirra vakið athygli stjórnvalda um heim allan. Nýsköpun er verkfæri frumkvöðla og eru það frumkvöðlar sem stofna sprotafyrirtæki utan um hugmynd sína. Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að greina frá upplifun frumkvöðla af stuðningsumhverfi sínu á Íslandi og hvort ákveðnir þættir innan þess umhverfis hafi áhrif á fjárfestingar til nýrra sprotafyrirtækja.
Í þessari rannsókn var notast við eigindlega rannsóknaraðferð í þeim tilgangi að heyra frá upplifun árangursríkra frumkvöðla af stuðningsumhverfinu á Íslandi. Rannsakandi tók viðtöl við átta frumkvöðla í heildina. Fjórir þeirra fóru í gegnum viðskiptahraðal meðan aðrir fjórir gerðu það ekki. Allir áttu það sameiginlegt að hafa fengið inn fjárfestingu til síns sprotafyrirtækis. Í kjölfarið tók rannsakandi viðtölin saman og greindi út frá þeim fjögur meginþemu.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að upplifun frumkvöðla af stuðningsumhverfinu er jákvæð en þó nefna allir þætti sem má bæta. Stuðningsumhverfi frumkvöðla gagnast öllum sprotafyrirtækjum að einhverju leyti þó helst þeim frumkvöðlum sem ekki hafa starfað í eða í kringum önnur sprotafyrirtæki. Niðurstöður leiddu enn fremur í ljós að ákveðnir þættir innan sem utan stuðningsumhverfisins hafa áhrif á fjárfestingu til sprotafyrirtækja. Utan stuðningsumhverfisins var það ótti sem frumkvöðlar skapa meðal fjárfesta við það að missa af tækifærinu að fjárfesta í sprotafyrirtækinu sem skilar þeim margfaldri ávöxtun til baka. Innan stuðningsumhverfisins voru það helst viðskiptahraðlar sem höfðu áhrif. Þar gefst frumkvöðlum tækifæri til að kynnst öðrum frumkvöðlum, öðlast þekkingu á ýmsum sviðum viðskipta, móta vöru sína eða þjónustu, kynnast fjárfestum og stækka tengslanet sitt. Viðskiptahraðlar eru að breyta stuðningsumhverfinu á heimsvísu og eru að hafa áhrif á fjárfestingar til nýrra sprotafyrirtækja úti í heimi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Og hvað svo? Upplifun nýrra sprotafyrirtækja af stuðningsumhverfi frumkvöðla.pdf | 791,58 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman yfirlýsing.pdf | 401,24 kB | Lokaður | Yfirlýsing |