Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38016
Stafrænt kynferðisofbeldi hefur nýlega verið gert refsivert hér á landi, sem brot á kynferðislegu friðhelgi einstaklinga. Stafrænt kynferðisofbeldi er birting eða dreifing á kynferðislegu eða viðkvæmu efni á stafrænu formi sem eru oftast myndir, myndbönd eða annars konar efni. Samfélagsleg umræða hefur verið hávær í tengslum við stafrænt kynferðisofbeldi á síðustu árum og telja margir stafrænt kynferðisofbeldi vera alvarlegt afbrot. Í þessari ritgerð verður stafrænt kynferðisofbeldi skoðað út frá félagsfræðilegu sjónarhorni, femínískum kenningum og hugtökum. Ásamt því verður fjölmiðlaumfjöllun um stafrænt kynferðisofbeldi á árunum 2017-2020 greind á tölulegan- og eigindlegan hátt með innihaldsgreiningu. Rannsóknarspurning þessarar ritgerðar er: Hvernig birtist umfjöllun um stafrænt kynferðisofbeldi í íslenskum fjölmiðlum og hvað má álykta út frá umfjölluninni? Fjölmiðlarnir sem skoðaðir eru með innihaldsgreiningu eru fréttamiðlarnir Ruv.is, Visir.is, Mbl.is, Dv.is, Stundin.is og Kjarninn.is. Niðurstöður sýndu að fjölmiðlarnir fjölluðu að meðaltali um það bil 47 sinnum um stafrænt kynferðisofbeldi 2017-2020. Fjögur meginþemu voru greind út umfjölluninni, þemun fjögur eru: Lagaákvæði um stafrænt kynferðisofbeldi, einstök stafræn kynferðisofbeldismál, forvarnir í tengslum við stafrænt kynferðisofbeldi og druslugangan. Umfjöllun um lagaákvæði er að mestu leyti jákvæð fyrir þolendur og samfélagið í heild, þar sem fjölmiðlar fjalla um mikilvægi þess að brotið sé skilgreint í lögum. Fjölmiðlaumfjöllun um einstök mál er hinsvegar vafasöm þar sem ofbeldinu er í einhverjum tilvikum stillt upp sem einstaklingsvanda. Í umfjöllum um forvarnir miðla fjölmiðlar til neytenda hversu hættulegt það sé að taka upp og senda áfram kynferðislegt efni. Sú umfjöllun getur verið skaðleg þar sem hún ýtir undir þolendaskömm og þær hugmyndir um að þolendur beri ábyrgð á ofbeldinu sem þeir verða fyrir. Fjölmiðlaumfjöllun um druslugönguna er jákvæð fyrir þolendur og samfélagið í heild þar sem hún styður þolendur stafræns kynferðisofbeldis. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að stafrænt kynferðisofbeldi er kynnt sem alvarlegt ofbeldi í fjölmiðlum og að þolendur eru í einhverjum tilfellum gerðir ábyrgir fyrir ofbeldinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
„Konur geta sjálfum sér um kennt%22.pdf | 796.08 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman yfirlýsing-signed2.pdf | 280.1 kB | Lokaður | Yfirlýsing |