Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38038
Skiptar skoðanir eru á því hvaða stefna sé heppilegust fyrir Ísland í gengis- og gjaldmiðlamálum. Nú er landið með sinn eigin gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu en uppi eru raddir um að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið í myntbandalagi með öðrum ríkjum. Innganga í myntbandalag hefði mikil áhrif á stjórnmála- og efnahagslíf landsins og því er að mörgu að hyggja ef bera á saman kosti og galla slíks fyrirkomulags. Áhrif á vaxtastig er einn þeirra þátta sem vegið gæti þungt í slíkum samanburði en í gegnum tíðina hafa vextir á Íslandi almennt verið hærri en víða annars staðar í Evrópu. Markmið ritgerðarinnar er að leggja mat á hvort innganga í myntbandalag hafi áhrif á raunvaxtastig og hvaða þættir stýra vöxtum. Í rannsókninni eru notuð gögn um raunvexti og aðrar hagstærðir frá 27 Evrópuríkjum og ná gögnin yfir tæplega 30 ára tímabil.
Í ritgerðinni eru sett fram líkön með bundnum áhrifum (e. fixed effects) og slembiáhrifum (e. random effects) í þeim tilgangi að fanga sérstæð áhrif á milli landa. Metin eru áhrif hagvaxtar, framfærsluhlutfalls, hlutfalls opinberra skulda og gjaldmiðilsins evru á stig raunvaxta. Til að koma í veg fyrir delluaðhvarf (e. spurious regression) er fyrsti mismunur tekinn af þeim breytum sem við á. Þá er framkvæmt Hausman-próf til ákvarða hvort nota á líkan með bundnum áhrifum eða slembiáhrifum. Niðurstaða rannsóknarinnar er að jákvæður hagvöxtur, hækkun framfærsluhlutfalls og það að hafa evru sem gjaldmiðil hefur neikvæð áhrif á breytingu raunvaxta á milli ára. Það bendir til þess að upptaka evru og þar með innganga í myntbandalag leiði til lægra stigs raunvaxta í þeim löndum sem rannsóknin nær til.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Arnar_Geir_BS_ritgerd.pdf | 4.48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.pdf | 272.45 kB | Lokaður | Yfirlýsing |