Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38107
Með lögum nr. 103/2020 var komið á svokölluðu sjálfsmati fyrirtækja (e. self-assessment), sem felur í sér að fyrirtæki sem hyggja á samstarf bera alfarið ábyrgð á að meta hvort að skilyrði undantekningarákvæðis 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 séu uppfyllt fyrir samkeppnishamlandi samstarfi, sem annars fer gegn bannákvæðum 10. og/eða 12. gr. laganna. Fram að breytingunni þurftu fyrirtæki að óska eftir formlegri undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu fyrir slíku samstarfi. Miðar ritgerðin að því að varpa nánara ljósi á sjálfsmatskerfið, bæði í efnislegu og sögulegu samhengi. Var lögð áhersla á að kanna hvert sé inntak skilyrða 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga og hvernig fyrirtækjum er kleift að framkvæma umrætt sjálfsmat. Einnig var fjallað um aðdraganda sjálfsmatskerfisins og kannað hver helstu rök löggjafans voru fyrir lagabreytingunni, hvers vegna hún þótti tímabær, og hvaða óvissuþættir kunna að ríkja um lagabreytinguna. Gegnumgangandi var fjallað um hin ýmsu álitaefni sem kunna að vakna um lagabreytinguna.
Höfundur telur að markmiði lagabreytingarinnar, þ.e. um einföldun og skilvirkni á framkvæmd samkeppnislaga, verði ekki náð með því einu að innleiða sjálfsmatskerfi í íslenskan samkeppnisrétt. Þvert á móti verði að fylgja slíkri lagabreytingu eftir með fullnægjandi hætti. Er niðurstaða ritgerðarinnar sú að það hafi ekki að öllu leyti verið gert með lögum nr. 103/2020, þar sem enn virðast ríkja ýmis vafaatriði um þýðingu lagabreytingarinnar og afleiðingar hennar. Í ritgerðinni var leitast við að bæta úr þeirri óvissu með því að gera helstu vafaatriðunum skil. Var t.a.m. fjallað um hvert hlutverk Samkeppniseftirlitsins verður eftir lagabreytinguna, að hve miklu leyti fyrirtæki geta stuðst við eldri undanþáguákvarðanir og réttarframkvæmd við mat á skilyrðum 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga og hvaða kröfur eru gerðar til framkvæmdar á sjálfsmati eftir umrædda lagabreytingu.
Lykilorð: Samkeppnisréttur, Sjálfsmatskerfi
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
meistararitgerd-HI-SRS-lokaskjal.pdf | 740.88 kB | Lokaður til...05.05.2030 | Heildartexti | ||
yfirlysingskemman.pdf | 350.21 kB | Lokaður | Yfirlýsing |