Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38348
Inngangur: Þrátt fyrir lágt algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma er byrði sjúkdómanna fyrir einstaklinginn og samfélagið mikil. Einstaklingar greinast almennt ungir og þrátt fyrir meðferð hefur stór hluti viðvarandi einkenni sem leiða oft til skertrar samfélagslegrar virkni og örorku. Geðrofssjúkdómar koma þó yfirleitt ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti, heldur hafa einstaklingarnir haft einhverskonar forstigseinkenni fyrir greiningu. Snemmíhlutun í geðrof gengur út á að stytta tímalengd ómeðhöndlaðs geðrofs, sem er tíminn frá því að forstigseinkenni gera vart við sig og þar til að einstaklingar eru meðhöndlaðir með geðrofslyfjum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hversu stórt hlutfall ungra einstaklinga sem fékk snemmíhlutun í geðrof hér á landi árin 2010-2020 tók þátt í námi eða vinnu að endurhæfingu lokinni og hversu stórt hlutfall hafði framfærslu af örorku, ásamt því að skoða hvaða þættir höfðu forspárgildi um það.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra sem höfðu útskrifast af Laugarásnum meðferðargeðdeild á árunum 2010-2020 eftir lengri en sex mánaða endurhæfingu (n=144). Rannsóknin byggði á upplýsingum úr sjúkraskrám allra þjónustuþega sem höfðu útskrifast úr endurhæfingu á tímabilinu. Tvíkosta aðhvarfsgreining var framkvæmd til að kanna hvaða breytur höfðu forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku og framfærslu af örorku að endurhæfingu lokinni.
Niðurstöður: Karlar voru 70% þjónustuþega og tæplega tveir þriðju þjónustuþega voru greindir með geðklofa við útskrift. Undir þriðjungur þjónustuþega hafði lokið stúdentsprófi og hafði tæp 70% sögu um kannabisneyslu. Við innskrift voru 75% þjónustuþega atvinnulausir, en það hlutfall lækkaði niður í 60% við útskrift. Þá var helmingur þjónustuþega í vinnu eða námi við útskrift og tæpur helmingur hafði framfærslu af örorku. Þeir þættir sem reyndust bæði hafa forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku og örorku í fjölþátta greiningu voru þeir þættir sem endurspegluðu alvarlegan geðrofssjúkdóm, þ.e. geðklofagreining og meðferð með geðrofslyfinu clozapine en einnig stúdentspróf og atvinnuþátttaka fyrir endurhæfingu. Jafnframt virtist starfsendurhæfing vera sá þáttur sem hafði mest forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku við útskrift.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að endurhæfing á Laugarásnum geti aukið samfélagslega virkni ungra einstaklinga eftir fyrsta geðrof, en færri voru atvinnulausir eftir endurhæfinguna en við innritun. En betur má ef duga skal, þar sem að tæplega helmingur þjónustuþega var hvorki í námi né vinnu við útskrift og hafði framfærslu af örorku eða endurhæfingarlífeyri. Margir þeirra þátta sem höfðu forspárgildi um samfélagslega virkni og örorku við útskrift er erfitt að hafa áhrif á með endurhæfingu og því er mikilvægt að einblína á þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á eins og starfsendurhæfingu á Laugarásnum. Einnig þarf að fræða almenning um forstigseinkenni geðrofssjúkdóma til að hægt sé að draga úr hrakandi samfélagslegri virkni fyrir inngrip í fyrsta geðrof sem hefur forspárgildi um náms- og atvinnuþátttöku og örorku að endurhæfingu lokinni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
RagnaKrGudbrands_VirkniOgOrorkaEftirGedrof.pdf | 2,33 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_RagnaGudbrands.pdf | 528,99 kB | Lokaður | Yfirlýsing |