is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38392

Titill: 
  • Krabbamein á höfði og hálsi á Íslandi 2009-2020: Nýgengi, meðferð og horfur
Námsstig: 
  • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Árið 2020 var krabbamein á höfði og hálsi sjöunda algengasta krabbameinið á heimsvísu. Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi, meðferð og horfur sjúklinga með krabbamein á höfði og hálsi á Íslandi á árunum 2009-2020 og jafnframt bera saman tímabilin 2009-2014 og 2015-2020 með tilliti til breytinga á milli tímabila.
    Efniviður og aðferðir: Skoðaðir voru einstaklingar sem greindust með krabbamein á höfði og hálsi á Íslandi á árunum 2009-2020 og fengust upplýsingar um kennitölur þeirra hjá Krabbameinsskrá Íslands. Frekari upplýsingar voru sóttar í sjúkraskrárkerfi Landspítalans. Þessum upplýsingum var safnað á fjögur mismunandi skráningareyðublöð og gögn úr þeim notuð til úrvinnslu rannsóknarinnar.
    Niðurstöður: Á árunum 2009-2020 greindust 382 einstaklingar með krabbamein á höfði og hálsi á Íslandi. Meðalaldur við greiningu var 64 ár og voru karlmenn 68% þýðisins. Fæstar nýgreiningar voru árið 2017, 25 talsins og flestar nýgreiningar voru árið 2016, 43 talsins. Algengasta krabbameinið á tímabilinu var krabbamein í munnholi (n=127) en óalgengast var krabbamein í nefkoki (n=17). Ef tímabilinu var skipt í tvennt jókst hlutfallsleg tíðni munnkokskrabbameina úr 22% greininga í 31%. Aðgerðum fór fækkandi á milli tímabila (65,9% í 50,7%) á meðan geislameðferðum sem frummeðferð fór fjölgandi (29,6% í 43,1%). Þónokkuð hallaði á konur í notkun geisla- og lyfjameðferða á tímabilinu en þetta jafnaðist lítillega út á seinni hluta tímabilsins. Sjúkdómsendurkoma var í 29,9% tilfella og algengast var að fá endurkomu á krabbameini í munnholi eða vör (37%). Endurkomum fækkaði úr 37% tilfella á árunum 2009-2014 í 23% tilfella á árunum 2015-2020. Besta tólf ára lifunin var í krabbameinum í munnkoki (80%) en verst var hún í munnvatnskirtilskrabbameinum (45%).
    Ályktanir: Tíðni munnkokskrabbameina jókst á milli tímabila en þessa aukningu má sennilega rekja til hærri tíðni HPV sýkinga sem gæti stafað af breyttri kynhegðun einstaklinga. Rannsóknin sýndi mun á meðferðarvali milli kynja, en þetta gæti stafað af mun á milli staðsetningar frumæxlis milli kynjanna eða þá að konur greindust síður með eitlameinvörp en karlar. Fækkun endurkoma milli tímabila má að einhverju leiti útskýra með styttri eftirfylgnitíma á seinna tímabilinu, en þó er ekki hægt að útskýra hana eingöngu út frá því, sem gæti bent til notkun áhrifaríkari meðferða.

Samþykkt: 
  • 17.5.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/38392


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ARK - BSRitgerð.pdf658,76 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf220,34 kBLokaðurYfirlýsingPDF