Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38394
Inngangur: Taugaviðbrögð heilbrigðra, þungaðra kvenna hafa lítið verið rannsökuð en aukin taugaviðbrögð á meðgöngu hafa verið tengd við burðarmálskrampa (e. eclampsia). Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvort taugaviðbrögð (sinaviðbrögð og Babinski viðbragð) séu öðruvísi á meðgöngu en annars og hvort þau breytist þegar líður á meðgönguna. Annað markmið rannsóknarinnar var að athuga samræmi tveggja taugalækna í mati á taugaviðbrögðum. Þar að auki var kannað hver skoðun sérfræðilækna fæðingarteymis og sérnámslækna kvennadeildar Landspítala var á breytingu taugaviðbragða í þungun.
Efni og aðferðir: Framskyggn, einblind, þverskurðarrannsókn á þremur hópum kvenna; óþunguðum, gengnum 14-18 meðgönguvikur og gengnum 34-38 vikur. Tveir taugalæknar, sem vissu ekki hvort konurnar voru þungaðar, skoðuðu hnéviðbragð, ökklaviðbragð og Babinski viðbragð þeirra og mátu þau fyrrnefndu eftir tveimur skölum, NINDS og Mayo. Styrkur taugaviðbragða var borinn saman milli hópa kvennanna sem og niðurstöður taugalæknanna tveggja innbyrðis. Einnig svöruðu 18 læknar á kvennadeild Landspítala spurningum um það hvað þeir héldu um taugaviðbrögð þungaðra kvenna.
Niðurstöður: Ekki reyndist marktækur munur vera á styrk sinaviðbragða milli hópa kvennanna (p>0,05). Ekki reyndist heldur munur á mati taugalæknanna innbyrðis (p>0,05). Langflestar kvennanna höfðu neikvætt Babinski viðbragð þar sem stóra tá leitaði niður, engin hafði óeðlilegt viðbragð en hjá tveimur fékkst ekkert viðbragð fram. Ákveðið var að sleppa tölfræðiútreikningum á svo afgerandi niðurstöðum. Átta (44%) læknar kvennadeildar Landspítala töldu að hné sinaviðbrögð væru líflegri hjá þunguðum konum en óþunguðum en tíu (56%) töldu enga breytingu verða á sinaviðbrögðum við þungun. Þrettán læknar (72%) töldu Babinski viðbragð ekki breytast við þungun en fimm læknar höfðu ekki myndað sér skoðun á því.
Ályktanir: Ekki er munur á taugaviðbrögðum heilbrigðra þungaðra kvenna miðað við þær sem ekki eru þungaðar og ekki er munur á taugaviðbrögðum snemma á öðrum þriðjungi og seint á þriðja þriðjungi meðgöngu. Taugalæknar leggja svipað mat á taugaviðbrögð á skölunum Mayo og NINDS. Nokkuð skiptar skoðanir eru meðal lækna kvennadeildar um taugaviðbrögð á meðgöngu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð - taugaviðbrögð þungaðra kvenna.pdf | 4.89 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman.pdf | 321.52 kB | Lokaður | Yfirlýsing |