is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38408

Titill: 
  • Ífarandi pneumókokkasýkingar á Íslandi 2001-2009. Með samanburði við árabilið 1975-2000
Námsstig: 
  • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sjúkdómsbyrði lungnabólgu og annarra ífarandi sýkinga af völdum Streptococcus pneumoniae er umtalsverð enda um algengar og alvarlegar sýkingar að ræða. Horfur sjúklinga með ífarandi pneumókokkasýkingar virðast ekki hafa breyst verulega í áranna rás en lýðgrundaðar langtímarannsóknir á faraldsfræði og klínískri birtingarmynd þessara sýkinga skortir.
    Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var lýðgrunduð og afturskyggn rannsókn á öllum sem greindust með ífarandi pneumókokkasýkingu á Íslandi árin 2001-2009. Upplýsingum var safnað um heilsufar, meðferð og afdrif sjúklinga en alvarleiki sýkinga metinn með APACHE II og PRISM III kvörðum. Af 214 tilfellum sem farið var yfir voru 42 sjúkraskrár óaðgengilegar og samanstóð úrtakið því af gögnum 172 sjúklinga. Gögnin voru skráð í gagnagrunn um pneumókokkasýkingar með upplýsingum um 933 sjúklinga sem greindust 1975-2005 og byggir seinni hluti rannsóknarinnar á samanburði við þau gögn.
    Niðurstöður: Algengasta greining bæði fullorðinna og barna var lungnabólga (72,1%) og nánast allir höfðu jákvæða blóðræktun (97,1%). Hjarta- og æðasjúkdómar voru algengustu undirliggjandi sjúkdómarnir (34,9%). Nýgengi sýkinga var hæst meðal yngstu og elstu sjúklinganna og það lækkaði miðað við árabilið 1993-2000 (P<.001). Hvað klíníska birtingarmynd lungnabólgu varðar var hiti algengasta einkennið (78,6%) og þá einkum meðal barna (96,5%), sem annars sýndu ekki mörg algeng einkenni fullorðinna. Nýrnabilun var algengasti fylgikvilli meðal fullorðinna lungnabólgusjúklinga (12,9%) en krampar meðal barna (10,6%). Penisillínlyf voru algengustu aðalsýklalyf á rannsóknartímabilinu öllu (53,0%). Algengasta hjúpgerðin var hjúpgerð 7F (15,8%) en hjúpgerð 6B var oftast ónæm fyrir penisillíni. 30 daga dánarhlutfall var hæst meðal heilahimnubólgusjúklinga (19,8%) en dánarhlutfall lungnabólgusjúklinga var 11,6%. Þeir sem létust fengu marktækt fleiri stig á APACHE II og PRISM III kvörðum (P=<.001). 30 daga dánartíðni var hærri á fyrsta áratug tímabilsins miðað við síðari árabil (P<.03) en tók ekki marktækum breytingum eftir það.
    Ályktanir: Nýgengi ífarandi pneumókokkasýkinga á Íslandi árin 2001-2009 lækkaði miðað við fyrri tímabil og var mjög tengt aldri. Klínísk birtingarmynd lungnabólgu er ólík meðal barna og fullorðinna. Algengi hjúpgerðar 7F er óvenjuhátt á Íslandi. APACHE II og PRISM III stigunarkerfin má nota til að spá fyrir um afdrif sjúklinga. Horfur sjúklinga með ífarandi pneumókokkasýkingar hafa ekki batnað marktækt síðustu áratugi þrátt fyrir framfarir í greiningu og meðferð fjölveikra.

Samþykkt: 
  • 19.5.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/38408


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HordurBragason_Pneumokokkasykingar_BS.pdf7.17 MBLokaður til...31.12.2024HeildartextiPDF
HordurBragason_Yfirlysing.pdf5.23 MBLokaðurYfirlýsingPDF