Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38426
Bakgrunnur: Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar eykst aðsókn eldri og veikari einstaklinga á bráðamóttöku. Á bráðamóttöku koma einstaklingar á öllum aldri með margvísleg heilsufarsvandamál. Vitað er að fólk deyr á bráðamóttökum um allan heim bæði í bráðum aðstæðum og í aðstæðum þar sem andlát er fyrirsjáanlegt.
Tilgangur: Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að skoða hvaða einstaklingar það eru sem deyja á bráðamóttökum, hvers vegna þeir deyja þar og hvort það sé æskilegur staður til að deyja á. Einnig var lögð áhersla á að skoða viðhorf hjúkrunarfræðinga á andlátum og umönnun deyjandi einstaklinga á bráðamóttöku.
Aðferð: Framkvæmd var kerfisbundin fræðileg samantekt úr rannsóknum sem fengnar voru af PubMed og CINAHL með ákveðnum leitarorðum. Sett voru fram inntöku- og útilokunarskilyrði til að afmarka leitina og niðurstöðurnar. Helstu skilyrðin voru að rannsóknirnar væru á ensku eða íslensku og væru frá landi þar sem heilbrigðiskerfið er svipað og á Íslandi. Rannsóknirnar voru frá árunum 2012-2020.
Niðurstöður: Átta rannsóknir voru valdar sem stóðust inntökuskilyrði. Þar af voru fimm eigindlegar, tvær bæði eigindlegar og megindlegar og ein megindleg spurningalistakönnun. Flestar rannsóknirnar voru um viðhorf og reynslu bráðahjúkrunarfræðinga á andlátum og hjúkrun deyjandi einstaklinga á bráðamóttökum. Meginniðurstöður rannsóknanna voru að aðstæður og umhverfi á bráðamóttöku eru ekki ákjósanleg fyrir deyjandi einstaklinga vegna mikils hraða og erils. Hjúkrunarfræðingar töldu að of mikið álag væri á bráðamóttökum til að geta veitt viðunandi meðferð svo að einstaklingur gæti dáið með reisn. Návist aðstandenda var talin nauðsynleg fyrir árangursríka lífslokameðferð.
Ályktun: Hjúkrunarfræðingar voru almennt sammála því að líknarhjúkrun væri mikilvægur hluti starfsins en vegna aðstæðna á bráðamóttökum væru þær ekki ákjósanlegur staður til að veita þá meðferð. Með aukinni fræðslu og mögulega innleiðingu frekari verkferla á bráðamóttöku gæti öryggi og líðan hjúkrunarfræðinga sem og skjólstæðinga orðið betri. Andlát munu halda áfram að eiga sér stað á bráðamóttökum og því gæti verið kostur að hafa aðgengilega hjúkrunarfræðinga sem hafa tíma til að sinna líknarhjúkrun.
Lykilorð: Lífslokameðferð, bráðamóttaka, bráðadeild, líknandi meðferð, andlát, dánarorsakir og dánartíðni.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| yfirlysing skemman.pdf | 128,25 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
| BS-lokaritgerð-skemman.pdf | 523,55 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |