Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38447
Inngangur: Skjaldkirtilskrabbamein er algengasta form krabbameins í innkirtlum. Langflest skjaldkirtilskrabbamein eru komin frá skjaldbúsfrumum (e. follicular cells). Þeim má skipta í vel þroskuð krabbamein (>90%), illa þroskuð krabbamein (~6%) og villivaxtarkrabbamein (~1-2%). Meðferð skjaldkirtilskrabbameins er fyrst og fremst fólgin í skurðaðgerð þar sem skjaldkirtill er fjarlægður alveg eða að hluta auk brottnáms á hálseitlameinvörpum séu þau til staðar. Gefa má geislajoð sem hjálparmeðferð, sérstaklega hjá sjúklingum með háa áhættu á endurkomu sjúkdóms. Efni og aðferðir: Þýðið samanstóð af einstaklingum sem greindust með skjaldkirtilskrabbamein á tímabilinu 1. janúar 2009 – 31. desember 2020. Krabbameinsskrá Íslands útvegaði kennitölur þessara einstaklinga. Upplýsingar um greiningu, meðferð og eftirfylgd fengust í sjúkraskráarkerfinu Sögu. Niðurstöður: Frá 1. janúar 2009 – 31. desember 2020 greindust 330 einstaklingar með 335 skjaldkirtilskrabbamein. Þroskuð mein voru 303 (90,4%), villivaxtarmein voru 24 (7,2%) og merggerðaræxli voru 8 (2,4%). Sex einstaklingar greindust í krufningu. Meirihluti sjúklinga, 307 af 324 (94,8%) fóru í aðgerð á skjaldkirtli og 150 af 324 (46,3%) fengu geislajoðmeðferð í kjölfar aðgerðar. Gerður var samanburður á umfangi meðferðar á milli tímabilanna 2009-2014 og 2015-2020. Hlutfall helftarbrottnáms þroskaðra meina var 18,9% á fyrra tímabilinu en 38,7% á því seinna. Fyrra tímabilið fengu 54,3% geislajoðmeðferð í kjölfar aðgerðar og 100% þeirra skammtastærð yfir 100mCi. Seinna tímabilið fengu 47,7% geislajoðmeðferð og 37,1% þeirra fengu lægri skammt geislajoðs (30mCi). 40 (16%) sjúklingar með þroskað skjaldkirtilskrabbamein fengu endurkomu sjúkdóms eftir frummeðferð. Hlutfallslega voru flestar endurkomur í hópnum „miðlungs“ áhætta á endurkomu, þar sem 31% sjúklinga fékk endurkomu. 40 sjúklingar af 324 (12,3%) voru látnir með skjaldkirtilskrabbamein í árslok 2020. Dánartíðni var hæst meðal sjúklinga með villivaxtarmein en 87,5% sjúklinga létust. Dánartíðni sjúklinga með þroskað mein jókst eftir því sem stigun sjúkdóms var hærri og var 80% hjá sjúklingum með mein á stigi IV. Ályktanir: Hlutfall villivaxtarkrabbameina af greindum meinum hærra en við mátti búast. Stigun og áhættuflokkun á endurkomu þroskaðra meina endurspeglar vel endurkomutíðni og hlutfallslega lifun sjúklinga og eru nytsamleg tól við meðferðarákvarðanir. Þróun meðferðar skjaldkirtilskrabbameina á Íslandi er í takt við þróun alþjóðlegra meðferðarleiðbeininga. Hlutfall þeirra sjúklinga sem fara í helftarbrottnám skjaldkirtils í stað heildarbrottnáms hefur aukist. Samhliða því hefur geislajoðmeðferðum fækkað og hlutfall þeirra sem fá lægri skammt geislajoðs aukist.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS.ritgerð.Katrín.pdf | 915,19 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Document_12.pdf | 1,01 MB | Lokaður | Yfirlýsing |