is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38494

Titill: 
  • Mælingar á mótefnasvari gegn próteinum SARS-CoV-2 veirunnar
Námsstig: 
  • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Inngangur: Mikið er enn óvitað um svar ónæmiskerfisins við SARS-CoV-2 sýkingu en mikilvægt er að að varpa ljósi á hvernig ónæmisminnið helst. Við virkjun ónæmiskerfisins myndast mótefni sem m.a. hamla tengingu veirunnar við frumur hýsilsins og varna endursýkingu. Markmið rannsóknarinnar var að mæla sértæk mótefni af IgA, IgG og IgM ísótýpum gegn RBD, S1 og N próteinum veirunnar og kanna hversu lengi mótefnin haldast eftir sýkingu ásamt því að bera saman mótefnasvar milli próteina og ísótýpa á mismunandi tímabilum eftir upphaf sýkingar. Að auki var markmið að bera saman bylgjur eitt og tvö og þrjú og bera saman mótefnasvar eftir alvarleika sjúkdóms og aldurshópum.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin var gerð í framhaldi af rannsókn frá sumrinu 2020. Mælingar voru gerðar á 546 sýnum frá 462 einstaklingum, með staðfestan COVID-19 sjúkdóm. Sýnataka fór fram á Landspítala frá febrúar að maí 2020, byrjun ágúst að lok nóvember 2020 og frá janúar 2021 að apríl 2021. Mótefnamælingar voru fyrst settar upp frá grunni og endanlegar mælingar framkvæmdar með Luminex xMAP tækni. Fyrir úrvinnslu og meðferð gagna voru forritin Excel og GraphPad notuð. Fisher próf og Kruskal-Wallis próf voru notuð til að kanna mun á hlutföllum og meðaltölum milli hópa.
    Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mótefnasvar mælist enn einu ári eftir frumsýkingu með SARS-CoV-2. Á vikum 45 til 56 mældust 90,5% og 95,2% einstaklinga enn jákvæðir fyrir IgA og IgG gegn a.m.k. einu próteini. Mótefnasvar IgG var hlutfallslega sterkast af öllum ísótýpum og mótefnasvar gegn RBD próteini hlutfallslega sterkast. Niðurstöður komu á óvart varðandi IgA mótefnasvar en þær benda til þess að IgA sé hlutfallslega sterkara við aukinn alvarleika veikinda og hjá eldri aldurshópum en þeim sem eru yngri. Þar að auki var marktækur munur á IgA mótefnasvari milli bylgja, þá sérstaklega fyrir S1 prótein sem áhugavert er að skoða nánar.
    Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að sértæk mótefni haldast í blóði allt að 56 vikum eftir upphaf sýkingar. IgG sýnir hlutfallslega sterkast mótefnasvar og mótefnasvar er hlutfallslega sterkast gegn RBD próteininu. Forvitnilegt var að sjá marktækan mun á IgA mótefnasvari milli bylgja, eftir alvarleika og aldri fyrir hina mismunandi mótefnavaka.

Samþykkt: 
  • 25.5.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/38494


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Mælingar á mótefnasvari gegn próteinum SARS-CoV-2 veirunnar.pdf1.24 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf239.47 kBLokaðurYfirlýsingPDF