Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38503
Hryggikt er bólgusjúkdómur sem einkennist af langvinnum verkjum og stirðleika í baki og mjöðmum. Sjúkdómsvirkni er t.d. mæld með ASDAS-kvarða (e. Ankylosing Spondylitis Disease Activity Score). Meðferðin byggist á líkamsþjálfun, bólgueyðandi gigtarlyfjum og í völdum tilfellum líftæknilyfjum, þ.á.m. TNF-hemlum. Markmið verkefnisins var að kanna svörun m.t.t. verkja og þreytu, meðal sjúklinga sem voru að fá fyrstu TNF-hemla-meðferðina og hvort verkir og/eða þreyta í upphafi meðferðar hafi áhrif á heildar TNF-meðferðartíma.
Efniviður og aðferðir
Stöðluðum heilsufarsupplýsingum var safnað úr ICEBIO um 354 einstaklinga (18-75 ára: 63% karlar) sem voru að hefja fyrstu meðferðarhrinu með TNF-hemli. Niðurstöður á sjónskala (VAS 0-100mm) fyrir verki og þreytu ásamt almennri líðan sjúklinga, læknismati á sjónskala (e. physician global) og ASDAS-einkunn var safnað í upphafi meðferðar og eftir 6 og 18 mánuði. Hugbúnaðurinn R var notaður við tölfræðiúrvinnslu.
Niðurstöður
Sjúkdómshléi skv. ASDAS (<1.3) náðu 45% einstaklinga eftir 6 mánaða meðferð og 61% eftir 18 mánuði. Verkir og þreyta minnkuðu marktækt frá upphafi meðferðar og að 6 mánuðum (p<0,001), en ekki frá 6 til 18 mánaða (p>0,49). Ekki var munur á ASDAS milli þeirra sem voru með mjög mikla verki (VAS 80-100) við upphaf meðferðar, miðað við þá sem voru með mildari verki (VAS 0-80). Verkjahléi (VAS 0-20) náðu 51% eftir 6 mánuði og 54% eftir 18 mánuði. Kaplan Meier greining á meðferðarlengd (3 ár) sýndi að sjúklingar með háa verkja- og þreytustuðla hættu fyrr á þessari meðferð en þeir sem höfðu mildari verki (p=0,0001).
Ályktanir
Svörun við TNF-hemlum var mjög góð skv. ASDAS og verkjaskala. Verkir við upphaf meðferðar virðast ekki hafa áhrif á þróun ASDAS, þó sýna niðurstöðurnar að þeir verkjamestu hætta fyrr á þessari meðferð en þeir sem eru með minni verki í upphafi meðferðar. Það að verkir og þreyta minnki verulega á fyrstu 6 mánuðum meðferðar en ekki milli 6 og 18 mánaða, gæti bent til þess að það dragi úr meðferðaráhrifum yfir tíma eða að verkjanæming hafi þróast meðal sjúklinganna, þetta þarfnast nánari rannsókna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
HildurOlafsdottir_BS_Ritgerd.pdf | 1,34 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_Skemman 2.pdf | 506,83 kB | Lokaður | Yfirlýsing |