Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/3852
Verkefnið Hreyfing og hrynjandi, tónlistarefni fyrir leikskólabörn er unnið af Ragnheiði Þóru Kolbeins leikskólakennara og er lokaverkefni í viðbótarnámi til B.Ed.-gráðu við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins er að útbúa kennsluefni í tónlist fyrir leikskólabörn og rökstyðja það með greinargerð um fræðilegar forsendur þess.
Verkefnið skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða kennsluefni í tónlist fyrir leikskólabörn sem samanstendur af geisladiski með þrettán lögum með kennsluleiðbeiningum fyrir leikskólakennara þar sem samþætt er tónlist og hreyfing. Hins vegar er greinargerð um fræðilegar forsendur og uppbyggingu kennsluefnisins. Fyrri hluti greinargerðarinnar fjallar um tónlist sem þroskaþátt í lífi ungra barna og þar er lýst hvernig tónlist er skilgreind í aðalnámskrá leikskóla. Auk þess er gerð grein fyrir kenningum þýska tónskáldsins Carl Orff og kennslufræði bandaríska tónlistarkennarans Lynn Kleiner.
Í síðari hluta greinargerðarinnar eru tengslin milli fræða og vettvangs skoðuð með umfjöllun um námskrá og starfsáætlun Leikskólans Sólborgar en þar hefur höfundur starfað í fimmtán ár. Niðurstaða og afurð verkefnisins er kennsluefnið Hreyfing og hrynjandi, tónlistarefni fyrir leikskólabörn sem samanstendur af 13 sönglögum og fjölda leiðbeininga um notkun þeirra auk fræðilegs rökstuðnings. Efnið er ætlað jafnt ófaglærðu sem faglærðu starfsfólki leikskóla.
Lykilorð: Hreyfing og hrynjandi, tónlistarstundir, tónlistarefni.