Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38562
Fremri krossbandaslit er alvarlegur og algengur hnéáverki meðal íþróttamanna sem getur haft í för með sér bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar. Líffræðilegur bakgrunnur meiðslanna og áhættuþættir þeirra hefur mikið verið rannsakaður í gegnum tíðina en minni áhersla hefur verið lögð á sálfræðilega þætti eins og þunglyndi og kvíða í kjölfar áverkans.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort þunglyndis- og/eða kvíðaeinkenni séu algengari hjá íþróttamönnum með áverka á fremra krossbandi en hjá öðrum íþróttamönnum sem ekki glíma við slíkan áverka. Einnig var markmið rannsóknarinnar að kanna viðhorf til sálfræðiþjónustu og það hvort einstaklingar hafi íhugað að hætta í sinni íþrótt sé ólíkt eftir andlegri líðan þeirra. Rannsóknin er þversniðsrannsókn þar sem lagðir voru fyrir þátttakendur spurningalistarnir Patient Health Questionnaire-9 (PHQ-9) og General Anxiety Disorder-7 (GAD-7), sem meta þunglyndis- og kvíðaeinkenni, ásamt spurningum um ýmsa bakgrunnsþætti. Niðurstöður rannsóknarinnar voru síðan bornar saman við fyrirliggjandi gögn úr rannsókn á vegum Íþróttafræðideildar HR og Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) þar sem listar voru lagðir fyrir reykvíska íþróttamenn í janúar 2021. Alls voru 31 þátttakendur sem tóku þátt í rannsókninni, þar af 74.0% konur og 26.0% karlar. Úr fyrirliggjandi gögnum voru 145 þátttakendur, þar af 38.0% konur og 62.0% karlar.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á marktækan mun milli hópa á kvíðaeinkennum þar sem krossbandahópurinn mældist með hærri kvíðaeinkenni en hópur annarra íþróttamanna. Ekki var marktækur munur milli hópa á þunglyndiseinkennum. Einnig voru hlutfallslega fleiri í hópi íþróttamanna með áverka á fremra krossbandi en í hópi annarra íþróttamanna sem mældust yfir klínísku viðmiði á kvíðakvarðanum. Út frá þessum niðurstöðum má álykta að íþróttamenn sem eru að jafna sig eftir krossbandaslit upplifi meiri kvíðaeinkenni og skimist frekar með kvíðavanda heldur en aðrir íþróttamenn sem glíma ekki við slík meiðsli.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Andleg heilsa og krossbönd.pdf | 830.1 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman - yfirlýsing.jpg | 1.68 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |