is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3861

Titill: 
 • Hljóðfæri á Íslandi fram yfir aldamótin 1900
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Einstaka hljóðfæri voru til á Íslandi á miðöldum: symfónar, einhverskonar fyrirrennarar orgels, gyðingahörpur og ef til vill eitthvað af fiðlum. Heimildir finnast einnig um fleiri hljóðfæri en þær eru yfirleitt tengdar útlöndum og því óvíst hvort þau hljóðfæri voru til á Íslandi. Fyrstu hljóðfærin sem náðu útbreiðslu hér á landi voru gamla íslenska fiðlan og langspilið. Ekki er víst hvenær fiðlan barst til landsins en líklegast þykir að hún hafi komið á 16. eða 17. öld þó hugsast geti að hún hafi komið fyrr. Langspilið þekktist ekki fyrr en eftir miðja 17. öld og ruddi þá fiðlunni að talsverðu leyti til hliðar.
  Við upphaf 19. aldar fór að bera á nýjum hugmyndum í tónfræði og bárust þær hingað að mestu frá Danmörku og Þýskalandi. Helsti talsmaður þessarar nýju tónfræði var Magnús Stephensen. Hljóðfærin sem þá voru til í landinu, fiðlan og langspilið, féllu illa að þessari nýju tónfræði, enda voru þau (sérstaklega langspilið) byggð á miðalda- eða kirkjutónfræði, sem hafði tíðkast hér allt frá siðaskiptum. Fór þá að bera á nýjum hljóðfærum frá meginlandi Evrópu og byrjuðu þau að afla sér vinsælda um miðja 19. öldina og við lok hennar voru gömlu íslensku hljóðfærin alveg horfin.
  Þessi nýju hljóðfæri voru til að mynda orgel (trúlega pípuorgel) er barst hingað fyrst með Magnúsi Stephensen árið 1800, harmóníum sem fóru að koma um miðja 19. öldina, píanó er kom snemma á 19. öld, nútímafiðlur sem finna mátti hér allt frá 18. öld, gítarar sem fóru að berast hingað á 19. öld, harmónikur er komu hingað á seinni hluta 19. aldar, flautur sem finna mátti þegar á 18. öld og ýmiss konar blásturshljóðfæri. Vinsælast allra hljóðfæra varð samt harmónika, þó lítið hafi borið á henni fyrr en á síðari hluta 19. aldar.
  Harmóníum voru mest notuð í kirkjum þó eitthvað hafi verið leikið á þau á tónleikum. Stuðlaði það að því að þau dreifðust víða og nutu mikilla vinsælda allra stétta. Píanó voru algengust á heimilum efnaðri manna og mest notuð heima fyrir. Fiðlur dreifðust víða um land og urðu vinsæl hljóðæri meðal allra stétta og var gjarnan notast við þær á tónleikum og dansleikjum. Harmónikur var oftast leikið á fyrir dansi en voru að mestu bundnar við alþýðu. Gítara var svo til aðeins hægt að finna á heldri heimilum og helst notast við þá í heimahúsum. Var algengast að það væru heimasætur er léku á þá og ekki var mikið um að karlmenn lærðu að leika á þá. Flautur voru vinsæl dansleikjahljóðfæri og léku allar stéttir á þær en önnur blásturshljóðfæri voru ekki tíð fyrr en að bera fór á lúðrasveitum á síðasta fjórðungi 19. aldar og voru þá mest nýtt af borgarastétt.

Samþykkt: 
 • 3.10.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3861


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Stefan_Valmundsson_Hljodfaeri_fixed.pdf392.35 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna