is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/38629

Titill: 
 • Titill er á ensku Nutrition Education and Councelling for Sports Federations in Iceland: Needs assessment Based on a Delphi Method Study
 • Næringarfræðsla og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna: Þarfagreining með Delphi aðferð
Námsstig: 
 • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Bakgrunnur: Mataræði skiptir miklu máli þegar kemur að frammistöðu íþróttamanna. Mikilvægt er að uppfylla þarfir líkamans fyrir orku-, vítamín, steinefni og önnur hollefni með næringarríkum mat auk þess að tímasetja máltíðir rétt og drekka nægilegan vökva. Næringarþekking íþróttafólks getur haft veruleg áhrif á hvernig það sinnir sínum næringarþörfum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að næringarþekking íþróttafólks er ekki nægilega góð og nýleg rannsókn sem var gerð á íslensku afreksíþróttafólki og þjálfurum þeirra sýndi slíkt hið sama.
  Markmið: Að kanna hvernig nágrannalöndin hafa mótað stefnur þegar kemur að næringarfræðslu til íþróttamanna og nýta þá þekkingu til að finna hentuga nálgun fyrir íslensku íþróttahreyfinguna. Markmið var að ná samstöðu (e. consensus) um þarfir og óskir þeirra aðila sem vinna innan fagsambandanna á Íslandi og íþróttanæringafræðingum/ráðgjöfum til að þróa næringarfræðslu og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna.
  Aðferðir: Delphi rannsóknarsnið var notað við öflun gagna. Þátttakendur voru valdir af rannsakendum með aðstoð ÍSÍ. Fyrst voru valdir þátttakendur frá fimm Evrópulöndum og starfa á sviði næringar hjá sínum íþróttasamböndum (n=5) og þeir spurðir hvernig næringarfræðslu er komið til skila til íþróttamanna, hvað hefur virkað og hvað ekki í fræðslu og ráðgjöf. Spurningalisti var hannaður út frá svörum úr viðtölunum fimm og sá spurningalisti var lagður tvisvar fyrir talsmenn íþróttasérsambandanna og næringarfræðinga/ráðgjafa á Íslandi sem vinna með íþróttafólki (fyrri umferð n=21; seinni umferð n=16).
  Niðurstöður: Almennt var mikill samhljómur meðal svarenda um mikilvægi þess að íþróttamenn, þjálfarar og foreldrar/forráðamenn fái næringarfræðslu og ráðgjöf. Svarendur lögðu áherslu á að ungir afreksíþróttamenn (18 ára og yngri) fái fræðslu og þá helst í gegnum snjallforrit (öpp) og að eldri íþróttamenn (eldri en 18 ára) sem leika fyrir landslið fengju einkasamtal við næringarfræðing/ráðgjafa. Þá var samhljómur um að mikilvægt væri að ráða næringafræðing til starfa hjá ÍSÍ, inn í sérsamböndin og í félögin sjálf. Þegar spurt var um kostnað voru svarendur sammála um að sérsamböndin ættu að borga fyrir afreksíþróttamenn (landslið og ólympíufara) en að aðrir íþróttamenn fengju styrk frá sínum félögum til að sækja slíka þjónustu.
  Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna mikilvægi þess að auðvelda aðgengi að næringafræðingi til að tryggja að íþróttafólk, þjálfarar, og foreldrar/forráðamenn fái gagnreyndar og reglulega uppfærðar upplýsingar um næringu. Þörf er á að byggja upp markvissa fræðslu og auka aðgengi að næringarráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna til þess að þeir sem sæki fræðsluna fái sem mest út úr henni og þeir sem veiti fræðsluna geti veitt góða fræðslu á sem hagkvæmastan máta.
  Lykilorð: Næringarþekking, Næringarfræðsla, Delphi rannsókn, Sérsambönd, Félög, Þátttakandi, Afreksíþróttamaður.

Samþykkt: 
 • 31.5.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/38629


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Næringarfræðsla og ráðgjöf fyrir íþróttahreyfinguna.pdf969.09 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
lokaverkefni yfirlýsing skemma.pdf234.79 kBLokaðurYfirlýsingPDF