is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38682

Titill: 
 • Áhrif hjartaaðgerða í frumbernsku á virkni T-eitilfrumna
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Týmus er líffæri sem tilheyrir ónæmiskerfinu og liggur í efra miðmæti framan við hjartað. Týmusinn gegnir lykilhlutverki við myndun starfhæfs ónæmiskerfis. Hann er vaxtar- uppeldis- og þroskastöð T-frumna. Eins og allar aðrar hvítfrumur eiga T-frumur uppruna sinn í blóðmyndandi stofnfrumu í beinmerg. Þaðan ferðast þær með blóðrás til týmuss þar sem þær taka út þroska sinn. Fyrir rúmum 15 árum var gerð rannsókn hér á landi á ónæmiskerfi íslenskra barna sem gengist höfðu undir opnar hjartaaðgerðir sem ungbörn þar sem týmus þeirra var fjarlægður að hluta eða allur. Þessar rannsóknir leiddu í ljós að börn í rannsóknarhópnum höfðu færri eitilfrumur í blóði, hlutfallslega færri CD4+ T-hjálparfrumur (CD3+CD4+) og óreyndar T-frumur (CD3+CD4+CD45RA+) en óskert hlutfall CD8+ T-drápsfrumna, samanborið við viðmið af sama aldri og kyni. Seinna var svo gerð önnur rannsókn þar sem gerð var ítarleg svipgerðargreining á T-frumunum og bentu niðurstöðurnar til þess að hluti þeirra hefði þroskast utan týmuss, hugsanlega í meltingarvegi. Skimun fyrir sjálfsmótefnum leiddi ekkert óeðlilegt í ljós og voru engin merki um klínískar afleiðingar. Markmið þessarar rannsóknar var að fylgja eftir fyrri rannsókn sem gerð var á árunum 2002-2006 og var ætlunin að kanna hvort mælanleg frávik í svipgerð T-frumna væru ennþá til staðar eftir að fullorðinsaldri væri náð og hvort einhver merki um sjálfsónæmi, ofnæmi eða skert viðbrögð við sýkingum hefðu komið fram.
  Efni og aðferðir: Viðfangsefni rannsóknarinnar voru 14 einstaklingar á aldrinum 24 til 34 ára (meðalaldur 29,8 ár) og voru úr hópi þeirra 19 sem komu til rannsóknar í upphaflegri rannsókn og höfðu gengist undir hjartaaðgerð sem ungbörn. Til viðmiðunar voru fengin blóðsýni frá 20 heilbrigðum einstaklingum og var kynjahlutfall og aldursdreifing hópanna jöfn. Tveir þátttakendanna voru barnshafandi og einn með sjúkdómsgreininguna sáraristilbólgu (e. colitis ulcerosa) og voru niðurstöður þeirra ekki hafðar með í lokaniðurstöðum úr rannsókninni. Heilsufar þátttakenda var kannað með spurningalista þar sem lögð var áhersla á sýkingar, ofnæmi og sjálfsónæmissjúkdóma. EDTA blóðsýni voru send til Blóðmeinafræðideildar Landspítala við Hringbraut til mælingar á blóðhag og hvítfrumudeilitalningu. Mælingar á mótefnum gegn sameindum í kjarna (ANA), sýrumyndandi frumum í maga (GPC), týróglóbúlíni og gigtarþætti (RF) voru gerðar á Ónæmisfræðideild Landspítala en voru aðeins framkvæmdar á tilfellahópnum. Eitilfrumur voru litaðar með flúrskinsmerktum músamótefnum gegn mannayfirborðssameindum og svipgerð þeirra metin með frumuflæðissjárgreiningu. Einnig var gerð deilitalning á hvítfrumum í frumuflæðisjánni.
  Niðurstöður: Hlutfall og fjöldi eitilfrumna var marktækt lægri í tilfellahópi samanborið við viðmiðunarhóp. Í samræmi við það var bæði hlutfall og fjöldi T-frumna marktækt lægri í tilfellahópnum en enginn munur var á hlutfalli eða fjölda B-frumna. Fjöldi CD4+ T-frumna var marktækt lægri í tilfellahópnum og það var tilhneiging til lægra hlutfalls CD4+ T-frumna en í viðmiðunarhópnum. Hins vegar var ekki marktækur munur á hlutfalli og fjölda CD8+ T-frumna. Fækkun í CD4+ T-frumum kom fram í fækkun í óreyndum CD4+ T-frumum og þessi munur var líka í óreyndum CD8+ T-frumum miðað við tilfellahóp. Það var hins vegar enginn munur á fjölda ræstra CD4+ eða CD8+ T-frumna hjá hópunum tveimur. Enginn munur var á magni ónæmisglóbúlína í blóði milli hópanna tveggja og einstaklingar í tilfellahópnum höfðu ekki óeðlileg sjálfsmótefni. Ekki voru merki um klínískar afleiðingar, svo sem aukna tíðni sjálfsónæmis, ofnæmi eða sýkingar hjá tilfellahópnum.
  Umræða og ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að fjöldi T-frumna er ennþá lægri í tilfellahópnum 15 árum eftir fyrri rannsókn. Þetta bendir til þess að brottnám alls eða hluta týmuss í frumbernsku hafi áhrif á heildarfjölda T-frumna í blóði sem leiðréttist ekki við hækkandi aldur. Hins vegar virðist þessi lækkun ekki hafa áhrif á starfsemi ónæmiskerfisins, enda ekki undir viðmiðunarmörkum.

Styrktaraðili: 
 • Vísindasjóður Landspítala
  Minningarsjóður Magnúsar Benjamínssonar og Sigríðar S. Einardsóttur
Samþykkt: 
 • 1.6.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/38682


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS ritgerð_Eyglo.pdf723.22 kBLokaður til...01.06.2023HeildartextiPDF
yfirlýsing_skemman.pdf241.71 kBLokaðurYfirlýsingPDF