is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38698

Titill: 
 • Gerviliðsýkingar á Íslandi 2003-2017 – afturskyggn faraldsfræðileg og klínísk rannsókn
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Gerviliðsýkingar eru sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli liðskiptaaðgerða sem geta skert lífsgæði og jafnvel valdið dauða. Meðferð er erfið, löng og kostnaðarsöm. Liðskiptaaðgerðum fer ört fjölgandi og að öllu óbreyttu er fyrirsjáanlegt að gerviliðsýkingum muni fjölga. Faraldsfræði gerviliðsýkinga hefur lítt verið rannsökuð hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa faraldsfræði þessara sýkinga m.t.t. aldurs, kyns, birtingarmyndar, áhættuþátta, sýklafræðilegra orsaka, meðferðar og afdrifa. Nýgengi var reiknað og metið hve margar sýkingar mætti rekja beint til liðskiptaaðgerðanna sjálfra.
  Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn lýsandi rannsókn á gerviliðsýkingum á Íslandi árin 2003-2017 sem staðfestar voru með ræktun. Úr gögnum Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala voru jákvæðar liðvökvaræktanir fundnar og þýðið afmarkað við þá sem höfðu gervilið þegar sýnið var tekið. Farið var yfir sjúkraskrár þessara einstaklinga og klínískar upplýsingar skráðar í FileMaker gagnagrunn. Notast var við tölfræðiforritið R og Excel við úrvinnslu gagnanna.
  Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 133 gerviliðsýkingar sem staðfestar voru með jákvæðri liðvökvaræktun. Nýgengi sýkinga yfir tímabilið hélst nokkuð stöðugt og var að meðaltali 0,91% (sýkingar/liðskiptaaðgerðir/ár). Meðalaldur sjúklinga var 69,9 ár, en 81 karl og 52 konur voru í þýðinu. Sýkingu mátti rekja beint til liðskiptaaðgerðar í 43,6% tilfella og voru gervihnjáliðir algengustu sýkingarstaðir (65,4%). Liðverkur var höfuðeinkenni sýkingar (94,7%). Megin áhættuþættir voru slitgigt, offita, og yfirþyngd. Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar og Staphylococcus aureus voru algengustu meinvaldar en tegundirnar ræktuðust samtals í 65,6% tilvika. Meðaltímalengd sýklalyfjagjafar í æð var 73,1 dagar og var sýklalyfið cloxacillin gefið í flestum tilvikum. Alls 52,6% höfðu langvinna verki og/eða hreyfiskerðingu til staðar >2 árum eftir greiningu. Framkvæma þurfti 4 aflimanir en enginn lést vegna gerviliðsýkingar á tímabilinu.
  Ályktun: Nýgengi gerviliðsýkinga á Íslandi hélst nokkuð stöðugt þessi 15 ár, en líklega er hér um vanmat að ræða þar sem klínískum greiningum og tilfellum með neikvæða ræktun er sleppt. Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar og S. aureus voru algengustu meinvaldarnir og samræmist það rannsóknum frá öðrum löndum líkt og Svíþjóð og Bandaríkjunum. Gerviliðsýkingum fylgir mikil sjúkdómsbyrði og langvinnir fylgikvillar í yfir helming tilvika sem skerða mjög lífsgæði fólks. Leita þarf fleiri leiða til að draga úr sýkingarhættu í tengslum við þessar aðgerðir og bæta meðferð þeirra.

Samþykkt: 
 • 2.6.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/38698


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Gerviliðsýkingar á Íslandi 2003-2017.pdf733.37 kBLokaður til...31.12.2023HeimildaskráPDF
Skemma yfirlysing.jpg3.11 MBLokaðurYfirlýsingJPG