is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38756

Titill: 
 • Bakteríuiðrasýkingar, Shiga toxín-myndandi E. coli og rauðalosblóðleysis- og nýrnabilunarheilkenni hjá íslenskum börnum
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Shiga toxín-myndandi E. coli (STEC) veldur blóðugum niðurgangi, kviðverkjum og uppköstum. Tíu til 15% barna með STEC fá rauðalosblóðleysis- og nýrnabilunarheilkenni (HUS) en greiningarskilmerkin eru: rauðalosblóðleysi, blóðflögufæð og bráður nýrnaskaði (BNS). Markmið rannsóknarinnar var að finna nýgengi bakteríuiðrasýkinga, STEC-sýkinga og STEC-HUS í íslenskum börnum <18 ára frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2020.
  Efni og aðferðir: Leitað var afturskyggnt í gagnagrunni Sýkla- og veirufræðideildar Landspítala að einstaklingum <18 ára með staðfesta bakteríuiðrasýkingu á rannsóknartímabilinu. Upplýsingar um ICD-10 greiningarkóða bakteríuiðrasýkingar, HUS, BNS, langvinns nýrnasjúkdóms (LNS), skilunar og nýraígræðslu fengust úr Vöruhúsi gagna á Landspítala. Sjúkraskrár einstaklinga með STEC-sýkingu voru skoðaðar til staðfestingar eða útilokunar á HUS og sjúkdómsgangs. Ef öll 3 greiningarskilmerki HUS voru uppfyllt var klínísk birtingarmynd fullkomin (cHUS), annars ófullkomin (iHUS). Stuðst var við KDIGO flokkunarkerfið við greiningu og stigun á BNS og LNS.
  Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindist 281 bakteríuiðrasýking. Algengasti sýkingarvaldurinn var Campylobacter í 55% tilfella en STEC greindist hjá 12% barnanna. Nýgengi allra bakteríuiðrasýkinga á rannsóknartímabilinu var 31,7/100.000 börn <18 ára. Nýgengi STEC-sýkinga var 3,8/100.000 börn <18 ára en 8,0/100.000 á aldrinum 0-5 ára. Meðalaldur við greiningu var 4,8 (spönn, 0-12) ár; 7 (44%) voru stúlkur og 9 (56%) drengir. Alls höfðu 33 (97%) börn niðurgang, 19 (56%) kviðverki, 17 (50%) blóð í hægðum og 13 (38%) uppköst. Sextán (48%) fengu HUS, 7 (21%) cHUS og 9 (26%) iHUS. Nýgengi HUS var 1,8/100.000 börn <18 ára. Miðgildi tíma frá upphafi meltingarfæraeinkenna að greiningu HUS var 7,5 (spönn, 1-15) dagar. Þrjú börn (43%) með cHUS þurftu kviðskilun. Sex (38%) fengu HUS í önnur líffæri en nýru og fengu þeir allir einkenni frá miðtaugakerfi; 9 (56%) höfðu LNS við 12 (miðgildi; spönn, 6-72) mánaða eftirfylgd.
  Ályktanir: Algengasta ástæða bakteríuiðrasýkinga í rannsóknarúrtakinu var Campylobacter og tíundi hluti staðfestra tilfella var vegna STEC. Um helmingur einstaklinga með STEC-iðrasýkingar fékk HUS, sem er hærra hlutfall en lýst hefur verið. Tæplega helmingur barna með cHUS þurfti skilun. Einkenni frá miðtaugakerfi voru algeng og helmingur tilfella fékk LNS. HUS er alvarlegur og algengur fylgikvilli STEC-iðrasýkinga hjá yngri börnum og þurfa sýktir einstaklingar nákvæmt lækniseftirlit í minnst 14 daga frá upphafi meltingarfæraeinkenna.

Samþykkt: 
 • 7.6.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/38756


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerd_HUS_LOKA_3.6.pdf1.22 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
LOKAVERKEFNI.pdf235.36 kBLokaðurYfirlýsingPDF