is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/38850

Titill: 
 • Einstofna mótefna nýrnasjúkdómar: Birtingarmynd og umfang
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er til staðar í um 4.2% einstaklinga yfir fimmtugt. MGUS er forstig mergæxlis og skyldra illkynja eitilfrumusjúkdóma. Einstaklingar með einstofna mótefnahækkun geta þróað með sér langvinnan nýrnasjúkdóm (LNS) vegna áhrifa einstofna mótefna á nýru. Slíkir nýrnasjúkómar tilheyra sérstökum sjúkdómsflokki og kallast einu nafni einstofna mótefna nýrnasjúkdómar (monoclonal gammopathy of renal significance, MGRS). Vísbendingar eru um að MGUS eitt og sér geti orsakað MGRS en umfang þess og áhætta er ekki þekkt. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl milli MGUS og LNS og sérstaklega MGRS til að meta tíðni þess og áhættu hjá einstaklingum með MGUS.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum rannsóknarinnar Blóðskimun til bjargar sem er fyrsta lýðgrundaða skimunarransóknin á MGUS sem gerð hefur verið á heilli þjóð. Í rannsóknarþýðinu voru allir þátttakendur sem höfðu verið skimaðir fram að 24. júní 2020, samtals 62.378 manns. Skimunarniðurstöður voru samkeyrðar við miðlægan rannsóknarstofugagnagrunn (FlexLab) sem inniheldur allar kreatínínmælingar og próteinmælingar í þvagi í íslensku heilbrigðiskerfi. Auk þess voru vefjafræðigreiningar á nýrnasýnum samkeyrðar við gögnin, yfirfarnar og skráðar inn í staðlað skráningarform. Kannað var hvort MGUS tengdist LNS og hvort MGUS tengdist próteinmigu eða sérlega skertri nýrnastarfsemi (gaukulsíunarhraði < 30ml/mín/1,73m2) hjá einstaklingum með LNS með tvíkosta aðhvarfsgreiningu þar sem leiðrétt var fyrir aldri og kyni. Auk þess var tíðni MGRS og ólíkra vefjagreininga reiknuð og borin saman eftir því hvort einstaklingar höfðu MGUS eða ekki.
  Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 62.378 manns og af þeim höfðu 3.885 (6,23%) einstaklingar MGUS. Stærsti hluti þeirra eða 51,5% var með léttkeðju MGUS. Ekki reyndist tölfræðilega marktækt samband milli MGUS og langvinns nýrnasjúkdóms. Ekki reyndust heldur marktæk tengsl milli MGUS og próteinmigu eða sérlega skertrar nýrnastarfsemi í LNS. Af öllum þeim sem höfðu farið í nýrnasýnatöku var tíðni MGRS 9,7% hjá þeim sem höfðu MGUS en aðeins 0,8% hjá þeim höfðu ekki MGUS.
  Ályktanir: MGUS virðist ekki stór orsakaþáttur LNS í almennu þýði eða í þýði einstaklinga með MGUS. Forstigið virðist heldur ekki tengjast próteinmigu eða sérlega skertri nýrnastarfsemi, þeim tveim sjúkdómsþáttum LNS sem skoðaðir voru í rannsókninni. Einnig benda niðurstöður til þess að MGRS sé ekki eins algengt og áður hefur verið talið.

Samþykkt: 
 • 10.6.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/38850


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_ritgerð_Guðrún_Ólafs.pdf5.17 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing_GÓ.pdf251.31 kBLokaðurYfirlýsingPDF