Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3919
Rannsókn þessi leitast við að svara hvort hægt sé að bera saman niðurstöður úr mælingum á hámarkssúrefnisupptöku eða Vo2max og Yo- Yo intermittent endurance test – level 2 (YIET) og hvort hægt sé að draga þá ályktun að svipaðar niðurstöður fáist úr þessum ólíku mælingum.
Mældir voru 16 einstaklingar úr meistaraflokki karla Vals í knattspyrnu. Aðeins var notast við útkomu 15 þeirra því að útkoma eins þeirra var ómarktæk. Þeir voru bæði mældir í Vo2max og einnig í Yo-Yo intermittent endurance test – level 2. Úr Vo2max mælingunni fæst þoltala og er hún borin saman við vegalengdina (m) sem einstaklingar ná í Yo-Yo prófinu. Það ætti að vera sterk fylgni á milli þess að vera með háa þoltölu og vegalendarinnar (m) sem hlaupin er í Yo-Yo prófinu.
Vo2max mælingarnar fóru fram þann 15. mars á hlaupabretti í rannsóknarstofu í Stapa, sem er aðsetur sjúkraþjálfunarskors Háskóla Íslands. Yo-Yo mælingarnar fóru fram í Sporthúsinu á gervigrasvelli þann 23. mars. Ofangreindir 16 leikmenn eru með þeim fremstu á Íslandi og eru við það að hefja leik á Íslandsmótinu. Meðaltal aldurs, hæðar og þyngdar leikmannanna er eftirfarandi: Aldur 24 ± 4.3 ár, hæð 182,5 ± 6.4 cm og þyngd 81,3 ± 7.9 kg.
Rannsóknin leiddi það í ljós að sterk jákvæð fylgni er á milli prófana tveggja eða r = 0,606 , P< 0.05. Þeir sem eru með háar þoltölur úr Vo2max prófinu eru að hlaupa lengri vegalengd (m) í Yo-Yo intermittent endurance prófinu heldur en þeir sem eru með lága þoltölu úr Vo2max. Hins vegar eru þó undantekningar á því en nánar um það síðar. Meðaltal úr Vo2max prófinu var 62.2 ± 6.1 ml/kg/min. Meðaltal úr YIET prófinu var 2784 ± 577m. Einnig var mældur hámarkspúls leikmanna í báðum prófunum fyrir sig til þess að staðfesta hvort þeir væru örugglega að gefa allt sem þeir áttu í prófin tvö. Meðaltal fyrir hámarkspúlsinn úr Vo2max prófinu var 185.4 ± 9.2 slög á mín. Meðaltal fyrir hámarkspúls úr Yo-Yo prófi var 187.4 ± 11.6 slög á mín. Það var sterk jákvæð fylgni þar á milli eða r = 0.754 , P< 0.01. Miðað við þessar tölur er hægt að áætla að þeir hafi lagt jafn mikla vinnu í bæði prófin. Notast var við SPSS tölfræði forrit til þess að vinna úr niðurstöðum.
Í þessari ritgerð er að finna fræðilegan kafla þar sem fjallað er almennt um þol og orkukerfin tengd því. Einnig er fjallað almennt um mælingar, hvers vegna mælt er og fjallað um nokkrar af vinsælustu og mest notuðu mælingunum. Rannsókninni sjálfri er líst á ítarlegan hátt og niðurstöðurnar kynntar og þeim gerð góð skil. Síðast er að finna umræður og lokaorð þar sem rannsóknarspurningu og tilgátu er svarað.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
um_fixed.pdf | 387.17 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |