Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/39713
Rannsóknir sýna að nemendur af erlendum uppruna standa mjög höllum fæti í grunnskólum landsins. Færni þeirra í íslensku og móðurmálinu, ásamt ensku, virðist vera þess eðlis að ekkert þessara tungumála myndi nýtast þeim í námi (Elín Þöll Þórðardóttir, 2021). Árið 2008 varð til opinber menntastefna samkvæmt lögum sem ber heitið Skóli án aðgreiningar (lög um grunnskóla nr. 91/2008). Með henni á að tryggja öllum nemendum rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Því var meginmarkmið rannsóknarinnar að komast inn í hugarheim umsjónarkennara árið 2021 og kanna bæði viðhorf þeirra gagnvart kennslu nemenda af erlendum uppruna og komast sömuleiðis að því hvernig þeirri kennslu væri háttað. Þannig verður hægt að sjá hvort sjónarhorn eða kennsluhættir þeirra endurspegli vandamálið sem virðist eiga sér stað innan veggja skóla landsins varðandi þennan nemendahóp. Beitt var eigindlegri rannsóknaraðferð og gögnum aflað í gegnum hálfopin einstaklingsviðtöl við tvo umsjónarkennara úr sitthvorum skólanum. Mikilvægt var að hlutfall nemenda af erlendum uppruna væri mishátt í skólunum, til að kanna hvort sýn og reynsla viðmælenda væri með ólíkum hætti. Meginniðurstöðurnar voru að báðir kennararnir töldu sig færa um að mæta þörfum nemenda af erlendum uppruna í kennslu, en háð einni forsendu, að þeir geti átt samskipti á tungumáli sem báðir aðilar hafa á valdi sínu. Ef forsendan var ekki uppfyllt voru þeir ráðþrota. Kennara virðist skorta þekkingu og hæfni til að kenna íslensku sem annað mál. Núgildandi aðalnámskrá þarf að gefa þessum nemendahópi mun meira vægi. Samhliða því verður hún að vera bæði skýrari og afmarkaðari, þannig að kennarar geti notað hana sem leiðarvísi í kennslu þessa nemendahóps.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| nemendur af erl. uppruna í skóla án aðgreiningar.pdf | 523,66 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| yfirlýsing.pdf | 886,09 kB | Lokaður | Yfirlýsing |