Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/39760
Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisþjóðfélags og er meðal mikilsverðustu mannréttindanna. Það styður við opna og upplýsta umræðu í samfélaginu og er þannig ein af grunnstoðum lýðræðisins. Í 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 er tjáningarfrelsið verndað. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur þó skýrt fram að gert sé ráð fyrir því að mögulegt sé að setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum ef skerðingarnar teljast nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Í greininni felst því ekki óheftur réttur til tjáningar. Skoðana- og tjáningarfrelsið er mjög mikilvægt og hafa menn vakið athygli á því lengi. John Stuart Mill skrifaði í tímamótariti sínu Frelsinu frá 1859: „Sá, sem einungis þekkir aðra hlið máls, þekkir hana ekki vel. Rök hans kunna að vera rétt, og kannski hefur enginn getað hrakið þau. En ef hann er ófær um að hrekja rök andstæðinga sinna og veit jafnvel ekki, hver þau eru, hefur hann enga ástæðu til að ætla, að sín skoðun sé réttari en hin.“ Þrátt fyrir mikilvægi tjáningarfrelsisins eru því settar víðtækar takmarkanir en það gefur augaleið að ótakmarkað tjáningarfrelsi getur raskað friði annarra og hvatt til ofbeldis. Mill benti einmitt á þetta og sagði: „Þvert á móti geta jafnvel skoðanir glatað friðhelgi sinni, ef aðstæður valda því, að birting þeirra hvetji beinlínis til ódæðisverka.“ Þetta lýsir kjarna tjáningarfrelsisins vel og á fullt erindi í dag, rúmum 150 árum síðar. Með tilkomu hefðbundinna fjölmiðla, netmiðla og samfélagsmiðla síðastliðin ár og áratugi hefur aldrei verið jafn auðvelt að fanga athygli fólks. Fólk sækir sífellt meira í internetið og aflar þar alls kyns upplýsinga en á sama tíma dregur úr lestri hefðbundinna prentmiðla. Dreifing hatursorðræðu hefur því aldrei verið jafn takmarkalaus og fyrirhafnarlítil. Tjáningarfrelsið getur snúist upp í andhverfu sína og er hatursorðræða dæmi um það. Í stað þess að efla samfélagið getur orðræðan takmarkað mannréttindi með því að leiða til ofbeldis og átaka í samfélaginu. Í raun er ekki ágreiningur á Íslandi um að fyrirbærið hatursorðræða sé til. Í þessu samhengi vaknar sú spurning hvort einstaklingurinn einn beri ábyrgð á orðum sínum eða hvort hefðbundnir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar beri ábyrgð á hatursorðræðu sem fer fram á vegum miðlanna? Í þessari ritgerð verður leitast við að varpa ljósi á þetta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
KristinFridthjofsdottir_Lokaritgerd_12agust2021.pdf | 587.31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing-Skemman.pdf | 34.63 kB | Lokaður | Yfirlýsing |