Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/39761
Skilgreining á þungbura (e.macrosomia) er mismunandi eftir löndum en á Norðurlöndum er að jafnaði miðað við fæðingarþyngd yfir 4,5 kg óháð meðgöngulengd. Tíðni þungburafæðinga á Norðurlöndunum er fjögur til sex prósent af öllum fæðingum árlega sem er með því hæsta sem gerist í heiminum. Áhættuþættir fyrir fæðingu þungbura eru t.d. bæri, sykursýki fyrir og á meðgöngu og lengd meðganga (e. prolonged pregnancy). Framkallanir fæðinga hafa aukist aðallega vegna fjölgunar greininga meðgöngusykursýki og vegna þess að framkallanir af völdum meðgöngulengdar eru gerðar fyrr. Rannsóknin fól í sér að skoða hvort breyting hafi orðið á tíðni þungburafæðinga á Íslandi á tímabilinu 1997-2018. Jafnframt var kannað hvort breytingar gætu skýrst af bættri greiningu meðgöngusykursýki eða styttri meðgöngu.Efniviður og aðferðir:
Rannsóknin var ferilrannsókn. Gögnin samanstóðu af 92 424 einburafæðingum á Íslandi 1997-2018 og voru fengin úr Fæðingarskrá Landlæknisembættis. Þungburi var nýburi með fæðingarþyngd yfir 4,5 kg. Tíðni þungburafæðinga var reiknuð sem hlutfall þungbura af heildarfjölda fæðinga fyrir hvert ár og lýst í myndum. Greiningin var lagskipt eftir sykursýki og meðgöngulengd. Þegar tíðni þungburafæðinga var skoðuð út frá sykursýki var tímabilinu skipt upp í þrjú jafnstór tímabil. Lengd meðganga var meðgöngulengd 41 vika eða meira.
Niðurstöður. Tíðni þungburafæðinga á Íslandi hefur lækkað. Í byrjun tímabilsins voru um 6% barna sem fæddust yfir 4,5 kg samanborið við 4% við lok tímabilsins. Þegar hlutfall þungburafæðinga var skoðað út frá ýmsum áhættuþáttum kom meðal annars í ljós að fjölbyrjur eru í tvöfalt meiri hættu á að eiga þungbura samanborið við frumbyrju. Samanborið við konur af öðrum uppruna fæða íslenskar konur frekar þungbura. Áhættan á þungburafæðingum tvöfaldaðist við meðgöngulengd yfir 41 viku og tíðni þungburafæðinga lækkaði mest meðal þessa hóps yfir tímabilið. Ekki var marktækur munur á tíðni þungburafæðinga hjá konum með meðgöngusykursýki milli fyrsta og síðasta tímabilsins (p>0.05). Þegar lagskipt var eftir meðgöngulengd mátti sjá að tíðni þungburafæðinga var 3,8% við fulla meðgöngulengd í lok rannsóknartímabilsins samanborið við 12,3% við 42 vikur eða meira. Ályktun. Lækkandi tíðni þungburafæðinga gæti skýrst af aukningu framkallana fæðinga, einkum meðal kvenna sem ganga fram yfir fulla meðgöngu. Sykursýki eykur mikið áhættuna á þungburafæðingum en aðeins lítill hluti þungbura sem fæðast á Íslandi eiga móður með sykursýki.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Jónína_BS_LOKA.pdf | 1,71 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlysing.pdf | 699,17 kB | Locked | Declaration of Access |