is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/39807

Titill: 
  • Sérstök viðkvæmni tjónþola: og áhrif hennar á bótaábyrgð vegna líkamstjóns, með áherslu á bætur vegna varanlegrar örorku
  • Titill er á ensku Victims' particular vulnerability: and its effects on liability for physical injury, with emphasis on claim due to permanent impairment
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Umfjöllunarefni ritgerðar þessarar, sem unnin er til meistaraprófs í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands, er mat á bótaábyrgð vegna líkamstjóns þegar tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur fyrir tjóni. Um þetta efni hefur lítið verið skrifað í íslenskum rétti, þó töluvert hafi verið fjallað um viðfangsefnið í norrænum rétti. Eftir uppkvaðningu Hrd. 23/2019 frá 25. september 2019 urðu ákveðin tímamót í íslenskri réttarframkvæmd þar sem Hæstiréttur lýsti því í fyrsta skipti hvaða skilyrðum þyrfti að vera fullnægt við mat á áhrifum sérstakrar viðkvæmni tjónþola á bótaábyrgð. Í málinu hafði tjónþoli, A, lent í slysi um borð í skipi vinnveitanda síns B hf. sem varð til þess að hann fékk sár litlu tá sem kom sérstaklega illa niður á honum þar sem hann var með sykursýki og var því viðkvæmari en almennt gerist fyrir þeim áverkum sem hann hlaut. Afleiðingar slyssins voru þær að fjarlægja þurfti tána og hluta af ristarbeini vegna beinsýkingar sem kom til vegna áverkans. Í málinu reyndi á hvaða áhrif sérstök viðkvæmni A fyrir slysi af þessum toga hefði á bótaskyldu B hf. Hæstiréttur leit til þriggja atriða við mat á þessu: Í fyrsta lagi var litið til þess hvort A hefði verið haldið þessum veikleika áður en hann varð fyrir slysinu. Í öðru lagi hvort sá veikleiki hafi „legið í dvala“ og ekki orðið til tjóns fram að því. Í þriðja lagi var litið til þess hvort slysið hefði leyst úr læðingi skaðlegar afleiðingar veikleikans.
    Í ritgerðinni verður leitast við að kanna þessi skilyrði nánar sem eru hluti af reglu sem þekkist í norrænum rétti undir heitinu sårbarhetprincippet en verður hér kölluð viðkvæmnisreglan. Í 2. kafla verður farið yfir helstu hugtök sem koma til skoðunar við könnun á viðfangsefninu, en einblínt verður á bætur fyrir varanlega örorku vegna líkamstjóns. Í 3. kafla verður gerð grein fyrir beitingu reglna um sennilega afleiðingu og orsakatengsl í tilvikum líkamstjóna og er í því samhengi fjallað um skilyrðiskenninguna sem felur í sér þá kröfu að háttsemi tjónvalds verði að vera nauðsynlegt skilyrði tjóns svo að til bótaskyldu stofnist. Í 4. kafla verður fjallað um hvaða áhrif sérstök viðkvæmni tjónþola hefur við mat á bótaábyrgð, en þessi kafli er þungamiðja ritgerðarinnar. Rakin verða þrjú ofangreind skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að unnt sé að beita viðkvæmnisreglunni. Í 5. kafla verður gerð grein fyrir hvernig beitingu viðkvæmnisreglunnar er háttað þegar um líkamlega viðkvæmni tjónþola er að ræða og er þar ýtarlega farið yfir rökstuðning Hæstaréttar í Hrd. 25. september 2019 (23/2019). Í 6. kafla er fjallað um beitingu viðkvæmnisreglunnar þegar um andlega viðkvæmni tjónþola er að ræða og þau sérsjónarmið sem gilda í þeim tilvikum. Loks eru niðurstöður dregnar saman í 7. kafla.

Samþykkt: 
  • 7.9.2021
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/39807


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð Kristin Anna Arnalds.pdf1.06 MBLokaður til...05.06.2050HeildartextiPDF
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf481.99 kBLokaðurYfirlýsingPDF