is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/39808

Titill: 
 • Fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group hf. Mun rekstur Icelandair verða lífvænlegur í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins?
 • Titill er á ensku Financial restructuring of Icelandair Group hf.
Námsstig: 
 • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Fæstir hefðu getað ímyndað sér þau víðtæku áhrif sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á heilsu og lifnaðarhætti frá upphafi faraldursins í upphafi árs 2020. Til að reyna að sporna við vexti og dreifingu faraldursins hafa stjórnvöld brugðið til þess ráðs að minnka umsvif vissra þátta samfélagsins og sett á samkomu- og ferðabönn ásamt öðrum takmörkunum. Ein afleiðing þessara aðgerða er samdráttur í hagvexti sem jafnast á við samdrátt á tímum kreppunnar miklu. Fáar atvinnugreinar hafa orðið fyrir eins miklum áhrifum og ferðaþjónustuiðnaðurinn.
  Icelandair Group starfar á markaði þar sem mjög mikil og óvægin samkeppni ríkir. Þó svo að alþjóðaflug- og ferðaþjónustumarkaðurinn sé gríðarstór krefst flugrekstur mikillar fjárfestingar og er afkoma flugreksturs í virðiskeðjunni óviðunandi í samanburði við aðrar greinar. Hörð samkeppni hefur gert það að verkum að lækkun á einingakostnaði hefur sögulega skilað sér jafnharðan í lægra flugmiðaverði og þar af leiðandi lægri einingatekjum. Á tímum þar sem flugfélög hafa verið rekin með hagnaði hafa birgjar, þar með talið starfsfólk í lykilaðstöðu til verkfalla, brugðist skjótt við að semja um hækkanir sér til handa.
  Flugferðir sem þjónusta eru í auknum mæli metnar sem stöðluð þjónusta af hálfu flugfarþega sem skipuleggja ferðalög sín í sífellt meira mæli með tilliti til verðlagningar þjónustunnar frekar en annarra þátta. Ein afleiðing þess er að markaðshlutdeild lággjaldaflugfélaga hefur vaxið hröðum skrefum síðasta áratug.
  Gjaldþrot flugrekstraraðila hefur ekki endilega í för með sér að samkeppni á markaði minnki. Eigendum flugvéla, flugvalla og annarrar þjónustu er mjög umhugað um að koma rekstrarfjármunum sínum í fullan rekstur á nýjan leik hjá nýjum rekstraraðilum. Líklegast hefur sjaldan verið lægri aðgangsþröskuldur fyrir nýja flugrekendur að hefja flugrekstur eins og eftir COVID-19 faraldurinn.
  Icelandair Group, rekstraraðili stærsta flugfélags landsins, var fyrir útbreiðslu COVID-19 faraldursins vel í stakk búinn fyrir fjárhagsleg áföll, með sterka lausafjárstöðu og hátt eiginfjárhlutfall. Sökum þess að algjört hrun varð á alþjóðlegum flugrekstri í kjölfar heimsfaraldursins sá stjórn félagsins sér ekki annað fært en að ráðast í fjárhagslega endurskipulagning samhliða hlutafjáraukningu að andvirði 23 milljarða íslenskra króna. Tilgangur þessarar ritgerðar er að fjalla heildstætt um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair og leitast við að svara rannsóknarspurningunni sem lögð er til grundvallar: Mun rekstur Icelandair verða lífvænlegur í kjölfar endurskipulagningar? Þá var einnig skoðað hvort vænlegra hefði verið að styðja ekki frekar við Icelandair en stofna heldur nýtt flugfélag í framhaldi af gjaldþroti Icelandair.
  Er það mat höfundar að þrátt fyrir að töluverður árangur hafi náðst af endurskipulagningu félagins, sem líklega er ein sú umfangsmesta í íslensku viðskiptalífi, séu þar aðallega þrír þættir sem hefðu þurft að ganga lengra í endurskipulagningunni til að efla rekstrarhæfni þess til framtíðar. Allir þrír þættirnir voru áskoranir í rekstri Icelandair Group fyrir upphaf COVID-19 heimsfaraldursins og tengjast þeir áhrifum á bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning félagsins. Í fyrsta lagi má leiða að því líkum að áætluð lækkun á einingakostnaði fram til ársins 2024 sé ekki næg. Í annan stað er framtíðarsamningsstaða gagnvart stéttarfélögum lykilstarfsstétta óbreytt, þ.e. ákveðnar stéttir geta haldið félaginu í gíslingu við samningagerð með verkfallsvopnið á lofti við kjarasamningagerð. Í þriðja lagi er það mat höfundar að þrátt fyrir fjárfestingu á tólf nýjum Boeing MAX flugvélum félagins, sé samsetning flugflota Icelandair líkleg til að verða dragbítur á rekstri félagins til framtíðar, með hærri rekstrarkostaði en hjá samkeppnisaðilum félagsins. Kallar flugfloti Icelandair á uppstokkun og fjárfestingu á allra næstu árum sem ekki er tekið á í endurskipulagningaráætlun félagins til ársins 2025.

Samþykkt: 
 • 7.9.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/39808


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skemman yfirlýsing Arnar Róbertsson.pdf163.35 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group hf..pdf4.56 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna