Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3995
Greint er frá rannsókn sem hafði það markmið að kanna hug fólks á
aldrinum 18–60 ára á Norðurlandi vestra til háskólanáms. Lítið var vitað
um viðhorf fólks á þessu svæði til æðri menntunar. Gildi rannsóknarinnar
var því að safna upplýsingum um viðhorf fólks á þessu svæði og þá
hugsanlegu þætti er stuðlað eða hindrað geta fólkið í að afla sér æðri
menntunar.
Gögnum í rannsóknina var safnað með spurningalista sem hannaður
var og notaður til að mæla viðhorf þátttakenda. Í rannsókninni var lagt
upp með einfalt 1000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem tekið var hjá
Skýrsluvélum ríkisins.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að íbúar Norðurlands
vestra á aldrinum 18–60 ára hafi jákvætt viðhorf til háskólanáms. Flestir
sjá háskólanám sem forsendu að fjölbreyttari störfum á atvinnumarkaði
(83%), betur launuðum störfum (77%) og í jákvæðu ljósi fyrir
Norðurland vestra í samkeppninni við önnur landssvæði. Ennfremur
virðast þátttakendur sjá gildi náms á háskólastigi sem þátt í að skapa fleiri
störf á svæðinu og laða fleira fólk til þess.
Þegar höfð eru í huga jákvæð viðhorf þátttakenda til æðri
menntunar kemur ekki á óvart að niðurstöðurnar leiða í ljós að talsvert
stór hópur svarenda 33% hefur hug á að stunda grunnháskólanám og enn
stærri hópur eða 42% hefur áhuga á að stunda það nám á Norðurlandi
vestra. Á hinn veginn sýna niðurstöðurnar að þátttakendur upplifa þætti er
mögulega hindra þátttöku þeirra í slíku námi auk þess sem karlar eru
minna áhugasamir um æðri menntun en konur.
Ef fyrst er horft til þess hvernig þátttakendur upplifa aðgengi að
námi á háskólastigi á Norðurlandi vestra sýna niðurstöðurnar að einungis
rétt rúmur helmingur þátttakenda telur aðgengið ásættanlegt. Meirihluti
þátttakenda (75%) virðist eiga mjög eða frekar erfitt með að finna sér
nám við hæfi á Norðurlandi vestra og nánast allir svarendur (94%) vilja
sjá fjölbreyttara námsframboð og þá ekki síst að í boði sé nám fyrir fólk
með mikla starfsreynslu en litla formlega menntun. Þátttakendur vilja
helst sjá að í boði sé fullt eða að hluta til staðbundið nám á Norðurlandi
vestra eingöngu. Ef sá möguleiki er ekki fyrir hendi kjósa þátttakendur að í boði sé fjarnám við háskóla sem ekki eru staðsettir á Norðurlandi vestra.
Síst vilja þátttakendur sjá að í boði sé háskólanám að sumarlagi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Menntun til sóknar á háskólastigi á Norðurlandi vestra...pdf | 964.53 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |