is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/39962

Titill: 
 • ALD á Íslandi. Nýgengi, áhættuþættir og horfur sjúklinga með alkóhóllifrarsjúkdóm
Námsstig: 
 • Bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
 • Inngangur: Tíðni alkóhóllifrarsjúkdóms (e. alcoholic liver disease, ALD) hefur ætíð verið lág á Íslandi þrátt fyrir tíðni ofnotkunar áfengis hafi verið algeng hér á landi. Síðastliðna áratugi hefur orðið aukning á tilfellum skorpulifrar og þá og sérstaklega aukning á áfengistengdri skorpulifur. Nýgengi skorpulifrar á árunum 1994-2020 var 3.3 tilfelli á hverja 100.000 íbúa þar sem áfengi var orsökin í 29% tilfella. Aukning hefur verið á síðastliðnum áratugum þar sem nýgengi á árunum 2010-2015 var 9.7 tilfelli á hverja 100.000 íbúa með 46% tilvika af völdum ofneyslu áfengis. Ekki hafa verið gerðar lýðgrundaðar rannsóknir meðal einstaklinga sem sækja sér áfengismeðferð til að meta algengi lifrarsjúkdóms hjá þessum sjúklingahópi ásamt horfum þeirra. Er það markmið þessarar rannsóknar að meta það.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn faraldsfræðirannsókn og tók til allra sjúklinga sem greindust á tímabilinu 1. janúar 2010 – 31. desember 2020. Sjúkdómsgreiningar sem leitað var að á Sjúkrahúsinu á Vogi voru: skv. greiningarskilmerkjum DSM 5: 303.9 og ICD F10.2: alcohol use disorder eða alcohol dependence F10,2. Á Landspítalanum var leitað að þeim sem greindust með skorpulifur og/eða áfengistengda lifrarbólgu á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2010 - 31. desember 2020 skv. ICD-10 sjúkdómsgreiningarkóðum. Leitað var upplýsinga um hversu oft þessir sömu einstaklingar höfðu lagst inn á Vog. Úr gagnasafni Landspítalans var aflað upplýsinga á lyflækningsdeildum eða þar sem sjúklingar sem greindust með lifrarsjúkdóm voru innlagðir. Leitað var að upplýsingum um stigun, einkenni, orsök og fylgikvilla lifrarsjúkdóms.
  Niðurstöður: Nýgengi ALD á tímabilinu var 6.47 ± 1.37/100.000 íbúar. Nýgengi meðal sjúklinga sem hófu áfengismeðferð á Vogi á tímabilinu var 1990 ± 541.5 /100.000. Alls greindust 238 sjúklingar með ALD. 114 þeirra greindust með skorpulifur meðan 47 greindust með áfengisorsakaða lifrarbólgu og 77 sjúklingar höfðu einkenni beggja. Meirihluti sjúklinganna voru karlar eða 77%. Af öllum sjúklingum höfðu 155 (65%) sótt áfengismeðferð á Vogi einhverntímann meðan 69 (29%) sóttu meðferð eftir greiningu. Þar af sótti 21 einstaklingur fyrstu áfengismeðferð eftir greiningu meðan 48 höfðu sótt meðferð áður. Samkvæmt mati meðferðaraðila létu 92 einstaklingar (39%) af drykkju eftir greiningu. Eingöngu 2% sjúklinga sem höfðu farið í meðferð þróuðu með sér áfengistengdan lifrarsjúkdóm. Lifun var verst hjá þeim hópi sem þróuðu með sér skorpulifur og Child-Pugh og MELD skor reyndust gagnleg til að spá fyrir um lifun. Ekki var munur á horfum milli kynjanna en horfur tengdust aldri. Alvarlegum fylgikvillum eins og HCC og ascites fylgdi aukin áhætta. Sjúklingar sem höfðu einhverntímann á Vogi höfðu ekki betri lifun samanborið við þá sem aldrei höfðu sótt meðferð. Sjúklingar sem lifðu lengur en 1 ár og hættu áfengisdrykkju höfðu bættar lífslíkur miðað við þá sem ekki hættu áfengisdrykkju. Innlögn á Vog hafði ekki forspárgildi fyrir hvort sjúklingar hættu algjörlega drykkju eftir greiningu með lifrarsjúkdóm.
  Ályktanir: Nýgengi ALD meðal þeirra sem sóttu meðferð á Vogi var töluvert hærra en í þýðinu í heild eins og við var að búast. Eingöngu 2% sjúklinga sem höfðu farið í meðferð þróuðu með sér áfengistengdan lifrarsjúkdóm. Greining með skorpulifur hafði mest áhrif á lifun ásamt alvarlegum fylgikvillum á borð við HCC og ascites. Í sjúklingahópnum sem lifði lengur en eitt ár frá greiningu var lifun betri hjá hópnum sem hætti áfengisdrykkju samanborið við þá sem hættu ekki. Ekki var sýnt fram á að innlögn á Vog hjálpaði sjúklingum að halda algjört áfengisbindindi eftir greiningu með ALD. Líklega eru sjúklingar með erfiðan fíknivanda líklegri til að hafa farið í meðferð ásamt því að algjört áfengisbindindi er ekki góður mælikvarði á gæði meðferðar og því um bjögun að ræða.

Samþykkt: 
 • 30.9.2021
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/39962


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_VERKEFNI.pdf648.37 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing.pdf576.67 kBLokaðurYfirlýsingPDF