Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/40054
Verkefnið sem nefnist „Að setja sig í spor annarra“ fjallar um nálgun og leiðir í þjónustu við fólk sem nýtir sér óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, auk þess sem nytsamleg verkfæri eru skoðuð. Verkefnið er greinargerð ásamt upplýsingaefni sem hugsað er til að upplýsa starfsfólk um ábyrgð og skyldur í þjónustustörfum við einstaklinga sem nýta sér óhefðbundin tjáskipti. Verkefnið á að miðla heildrænni sýn á þá þætti sem skipta mestu máli í þjónustu og gefa yfirlit yfir leiðir sem gagnast til þess að lesa í og túlka vilja fólks.
Markmiðið með verkefninu er tvíþætt, annars vegar þörfin fyrir að vekja athygli á málefnum fólks sem nýtir óhefðbundin tjáskipti til samskipta í daglegu lífi og hins vegar skyldur og ábyrgð þroskaþjálfa í þjónustu við þennan hóp. Tilgangur verkefnisins er að útbúa aðgengilegt fræðsluefni með það í huga að upplýsa starfsfólk á sem einfaldastan hátt um ábyrgð og skyldur sínar í þjónustustörfum við einstaklinga með óhefðbundin tjáskipti. Upplýsingaefnið gagnast bæði þroskaþjálfum til að upplýsa aðra og starfsfólki sem hefur takmarkaða þekkingu eða reynslu af óhefðbundnum tjáskiptum. Þá mun upplýsingaefnið innihalda kynningu á mannréttindum, réttindum til tjáningar og að iðka gerhæfið sitt, ábyrgð og skyldum starfsfólks, valdeflandi og hagnýtum leiðum í þjónustu við fólk með óhefðbundin tjáskipti. Einstaklingar sem nota ekki talmálið eitt og sér til samskipta eiga það til að gleymast í samfélaginu þar sem margir hverjir hafa takmarkaðan aðgang að leiðum til tjáningar og hvorki háværa rödd né frumkvæði að samskiptum. Mikilvægt er að þeir sem vinna fyrir þennan hóp beri hag þeirra fyrir brjósti, reyni að setja sig í þeirra spor, virði vilja þeirra, virkji þá til þátttöku í samfélaginu og þannig efli sjálfræði þeirra.
Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru hafðar að leiðarljósi við gerð verkefnisins: Hver er ábyrgð og skylda þroskaþjálfa í störfum gagnvart starfsfólki og þjónustunotendum? Hvaða þekkingu þarf að hafa til að hægt sé að lesa í vilja fólks sem ekki tjáir sig með hefðbundnum hætti og hvernig er hægt að miðla þeirri þekkingu til starfsfólks?
Fyrstu niðurstöður sýna glöggt að það er hlutverk þroskaþjálfa að fræða og upplýsa starfsfólk um mannréttindi, gildandi lög í þjónustu við fatlað fólk og leiðir í framkvæmd þjónustunnar. Einnig þurfa þeir að gæta þess að starfsfólk tileinki sér rétt viðhorf og sé reiðubúið til þess að leggja sig fram við að skilja vilja þeirra einstaklinga sem þeir starfa fyrir.