Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4014
Vallaskólaleiðin hófst sem þróunarverkefni í íslensku á unglingastigi við Vallaskóla á Selfossi. Markmiðið var að semja námsefni í íslensku fyrir unglingastig grunnskóla sem hefði einstaklingsmiðað nám að leiðarljósi. Þróunarverkefnið óx og dafnaði og nú er námsefni Vallaskólaleiðarinnar komið í útgáfu og er kennt í þrjátíu skólum víðs vegar um landið. Vallaskólaleiðin samanstendur af hugmyndum, verkefnabókum og kennsluvef.
Markmiðið með þessu M.Ed.-verkefni er að skoða hlut Vallaskólaleiðarinnar í íslenskukennslu á unglingastigi grunnskóla og hvernig þær aðferðir sem hún byggist á tengjast hugmyndum um einstaklingsmiðað nám. Rannsóknarspurningarnar eru tvær: Fellur Vallaskólaleiðin undir hugmyndir um einstaklingsmiðað nám? Hvaða nýbreytni er að finna í Vallaskólaleiðinni fyrir íslenskukennslu?
Gerð er grein fyrir Vallaskólaleiðinni, hugmyndum hennar, markmiðum og megináherslum. Einnig er gerð grein fyrir hugmyndum Daltonskóla og hlítarnáms en Vallaskólaleiðin sækir hugmyndir sínar þangað. Að auki er fjallað um reynsluna af kennslu samkvæmt Vallaskólaleiðinni og þremur könnunum sem lagðar voru fyrir kennara og nemendur skólaárið 2007 – 2008.
Fjallað er um hugtakið einstaklingsmiðað nám og umfjöllunin tekur mið af þeim fræðimönnum sem skrifað hafa hvað mest um einstaklingsmiðað nám og kennsluhætti. Þá er litið til þess hvernig umræðan um einstaklingsmiðað nám, námsefni og kennsluhætti hefur verið hér á landi. Fjallað er um það þegar hugtakið einstaklingsmiðað nám varð áberandi í skólaumræðu á Íslandi og hvaða áhrif sú umræða hefur haft.
Niðurstöður benda til þess að Vallaskólaleiðin falli vel að hugmyndum um einstaklingsmiðað nám. Námsefnið virðist hvetja til sjálfstæðra vinnubragða og ábyrgðar í námi. Einnig inniheldur námsefnið ákveðið val fyrir nemendur, annars vegar með vali á verkefnum og hins vegar við úrvinnslu þeirra. Miðað er við getu hvers og eins nemanda og til þess er notuð viðmiðunareinkunn, þ.e. einkunn sem nemandi og kennari verða sammála um að endurspegli getu hans. Nemandi þarf þá að ná viðmiðunareinkunn sinni í hverri lotu. Helsta gagnrýnin sem komið hefur fram er sú að ramminn sem Vallaskólaleiðin setji sé of stífur og verkefnin of mörg. Einnig virðist Vallaskólaleiðin hvetja til fjölbreyttra kennsluhátta en tryggir vitaskuld ekki að þeim sé beitt. Samkvæmt könnun sem lögð var fyrir kennara og nemendur skólaárið 2007-2008 virðist þeim líka vel við fyrirkomulag náms samkvæmt Vallaskóleiðinni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
vallaskolaleidin_fixed.pdf | 815.21 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |