Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4018
Ýmsar líkamsbreytingar koma fram hjá fólki þegar það eldist. Hækkandi aldri fylgir minnkuð hreyfigeta og ýmis heilsufarsleg vandamál geta gert vart við sig. Rannsóknir á líkamsþjálfun eldri aldurshópa hafa sýnt fram á mikilvægi þjálfunar í baráttunni við áðurnefnda fylgifiska öldrunar. Það er því í vaxandi mæli farið að ráðleggja öldnum að stunda reglulega líkams- og heilsurækt og tileinka sér lífshætti hreyfingar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif blandaðar þol- og styrktarþjálfunar á holdafar og hreysti aldraðra.
Þátttakendur í rannsókninni voru ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri af höfuðborgarsvæðinu og úr Árborg. Í upphafi var 400 einstaklingum boðin þátttaka og síðar var mökum þeirra sem þáðu boðið, boðið að vera með líka. Alls voru það 176 einstaklingar sem þáðu boð um þátttöku, af þeim uppfylltu 8 einstaklingar ekki skilyrði um þátttöku og því voru það 168 manns, sem hófu rannsóknina. Þátttakendur þreyttu próf í byrjun rannsóknar. Með þeim var lagt mat á liðleika í efri og neðri líkamshelmingi, SPPB hreyfifærniprófið, sex mínútna göngupróf, mat á gripstyrk og styrk í framanverðu læri. Líkamssamsetning var metin með líkamshlutamælingum og mælingum á fitu, beinum og vöðvum með DXA geislagleypnimælingum.
Úrtakinu var skipt af handahófi í tvo hópa, þjálfunarhóp (ÞH, n=87) og viðmiðunarhóp (VH, n=58). Hlutfall karla var það sama í báðum hópum og meðalaldur hópanna sá sami. Þjálfunarhópurinn stundaði blandaða þol- og styrktarþjálfun í 26 vikur. Þolþjálfunin fólst í göngu tvisvar í viku undir leiðsögn íþróttafræðinga og sjúkraþjálfara, en hina daga vikunnar gengu þátttakendur sjálfir, styrktarþjálfun var tvisvar í viku og skráðu þátttakendur alla hreyfingu í dagbækur. Viðmiðunarhópur naut ekki skipulagðar þjálfunar á rannsóknartíma.
Að loknum fyrri mælingum kom fram munur á milli hópanna í þremur prófum. ÞH var fljótari að standa upp og hringa keilu (p<0,001), hafði meiri styrk í vöðvum í framanverðu læri (p<0,05) og meiri beinþéttni í hægri lærleggshálsi (p<0,05).
Helstu niðurstöður að loknum seinni mælingum voru þær, að ÞH bætti árangur sinn marktækt í 32 af 46 mælingum en VH bætti árangur sinn marktækt í 18 og árangur hans versnaði marktækt í tveimur mælingum. VH bætti árangur sinn martækt (p<0,05) í mælingum á ummáli mittis, hlutfalli mittis og mjaðma, þyngd, kviðfitu, mjaðmafitu, heildarfitu, hlutfalli líkamsfitu og líkamsþyngd metinni með DXA mælingu. Hann jók liðleika í báðum öxlum, fékk fleiri stig fyrir að standa upp úr stól og jók vöðvamassa hægri fótar, kviðar, mjaðma og heildarvöðva bols. Auk þess minnkar marktækt styrkur í framanverðu læri og beinþéttni í vinstri lærleggshálsi. ÞH bætir árangur sinn marktækt (p<0,05) í mælingum á ummáli mittis, hlutfalli mittis og mjaðma, hæð, þyngd, líkamsþyngdarstuðli, kviðfitu, mjaðmafitu, heildarfitu, hlutfalli líkamsfitu og líkamsþyngd metinni með DXA mælingu. Hann fær fleiri stig fyrir að standa upp úr stól og fleiri heildarstig á SPPB prófi, bætir sig í að standa upp og hringa keilu, 4 m göngu og standa-setjast. Hvíldarpúls og púls einni mínútu eftir göngupróf lækkar og gönguvegalengd eykst. Gripstyrkur eykst í báðum höndum sem og gripstyrkur mældur í Hjartavernd og styrkur í framanverðu læri. Vöðvamassi eykst í fótum samanlagt, í hægri fæti, kvið, mjöðmum, bol og heildarvöðvamassi eykst.
Þegar leiðrétt er fyrir aldri, kyni og grunnmælingu, kemur í ljós marktækur munur (p<0,05) á milli hópa í 18 mælingum og í öllum tilfellum er sá munur ÞH í vil. Líkamsfita metin með DXA er minni í öllum tilfellum. Árangur ÞH í mælingum á þoli eru betri og styrkur hans í framaverðum lærvöðvum er meiri. Bæði liðleiki í neðri líkamshelmingi og gönguhraði er meiri hjá ÞH og tíminn sem það tekur að standa upp og hringa keilu og standa upp og setjast er styttri hjá ÞH. Ekki kom fram munur á milli hópa í beinmælingum eða mælingum á vöðvamassa.
Þessi rannsókn skilar áhugaverðum niðurstöðum, þar sem kemur fram jákvæður árangur af blandaðri þol- og styrktarþjálfun. Það á sérstaklega við um atriði, sem tengjast hreyfifærni eða þætti eins og þol, styrk, liðleika og snerpu. Þessar niðurstöður renna stoðum undir mikilvægi þjálfunar fyrir eldra fólk og ættu að hjálpa til við stefnumótun í málefnum þess í framtíðinni.
Lykilorð: Hreysti.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ung_i_annad_sinn_fixed.pdf | 2.14 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |