Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40268
Af grundvallarhugmyndum um þrígreiningu ríkisvaldsins og 2. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að byggt er á ákveðinni verkaskiptingu milli handhafa ríkisvaldsins. Á milli verkefna þessara valdhafa getur hins vegar orðið ákveðin skörun, til að mynda við stjórnsýslu dómstólanna. Í ljósi hugmynda um þrígreiningu ríkisvaldsins og grundvallarreglna um sjálfstæði dómstólanna kunna hins vegar að vakna spurningar um það hver eigi að fara með yfirstjórn og eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna, til hvað verkefna sú yfirstjórn og eftirlitið eigi að ná og hvaða reglum beri að fylgja við handhöfn þeirrar stjórnsýslu sem fram fer á vegum dómstólanna. Í ritgerðinni var leitast að svara þeim spurningum og gera grein fyrir þeim aðilum sem falið hefur verið að fara með stjórnsýslu dómstólanna, með áherslu á dómstólasýsluna og nefnd um dómarastörf. Gerð var grein fyrir stjórnskipulegri stöðu þeirra og þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin. Þá var jafnframt gerð grein fyrir eftirliti tiltekinna aðila á vegum framkvæmdar- og löggjafarvaldsins með stjórnsýslu dómstólanna, auk þess sem fjallað var um hvernig miðlægri stjórnsýslu dómstólanna er háttað á Norðurlöndum.
Komist var að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að af lögskýringargögnum verði ráðið að lagt hafi verið upp með að bæði dómstólasýslan og nefnd um dómarastörf heyrðu undir dómsvaldið sé stjórnskipuleg staða þeirra flókin og að ekki sé að öllu leyti samræmi á milli laga og lögskýringargagna um stöðu þeirra. Þá var jafnframt ráðið af dómaframkvæmd að óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins gildi um stjórnsýslu dómstólanna, a.m.k. á sviði starfsmannamála, en einnig voru færð rök fyrir því að réttaröryggissjónarmið mæltu með víðtækara gildissviði þeirra.
Í ritgerðinni var veitt yfirlit yfir verkefni dómstólasýslunnar og nefndar um dómarastörf og þá einkum eftirlitshlutverk þeirra. Komist var að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að kveða skýrar á um eftirlitshlutverk dómstólasýslunnar og umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslu dómstólanna í lögum, og þá einkum um þann farveg sem þeim, sem telja dómstólana hafa gert á sinn hlut með stjórnsýslu sinni, er fært að beina kvörtunum sínum og þar með fá úrlausn sinna mála. Er það ekki síður mikilvægt vegna þeirrar réttaróvissu sem ríkir um eftirlit umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslu dómstólanna, í ljósi þess réttaröryggishlutverks sem honum er ætlað að gegna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð_lokaskjal.pdf | 613,07 kB | Lokaður til...05.01.2045 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna.pdf | 437,97 kB | Lokaður | Yfirlýsing |